luxatio hugans

awakening

laugardagur, desember 20, 2003

Jólafrí takk fyrir takk. Ég held að ég hafi komist mjög mannsæmandi frá þessu, jafnvel staðist með prýði. Ef ekki, þá er ég þokkalega veruleikafirrt, og þá er ekkert við því að gera.
Sem sagt: Þegar öllu er á botninn hvolft, þá fer allt einhvern veginn að lokum, þó á tímabili efist margur um það.

sunnudagur, desember 14, 2003

Oh, en frábært. Örn Arnarson er annar í einhverju fokking dauðans sundi, og tryggir sér þar með titilinn Íþróttamaður ársins í fjórða sinn á fimm árum eða eitthvað álíka fáránlegt. Þetta helvítis EM í sundi er alltaf í lok Nóvember eða byrjun Desember, þannig að þetta virðist alltaf vera það eina sem Halti Björn og félagar muna eftir í þessari atkvæðagreiðslu.
Má ég líka tjá mig um eitt. Maðurinn syndir baksund sem er ein af fjórum, fimm sundaðferðum, veit ekki nákvæmlega. AUK ÞESS er hann bara að ná árangri í tveimur vegalengdum, 100 m og 200 m af einhverjum skrilljón OG EKKI NÓG MEÐ ÞAÐ heldur bara í 25 metra laug.
Hversu stórfenglegur er þessi árangur með tilliti til þess??? Auk þess er þetta annað sætið á EM, og þar af leiðandi engir Ástralir eða Bandaríkjamenn. Ef einhver er enn að velkjast í vafa, þá finnst mér þetta afrek minna en ekkert merkilegt.
Eiður Smári sem tvímælalaust albesti íþróttamaður Íslands. Hann er í klassa með albestu knattspyrnumönnum heims og knattspyrna er stunduð um alla veröld, ólíkt handboltanum sem við státum okkur ógurlega af en Englendingar þekkja ekki einu sinni.
Svo varð líka íslensk kona, Karen einhver, heimsmeistari í samkvæmisdönsum á árinu. Heimsmeistari er flott, en einhver vegin rennir mér í grun að það hljóti ekki sama sess hjá atkvæðabærum íþróttafréttamönnum og annað sætið í 100 m baksundi í 25 metra laug á Evrópumóti.

laugardagur, desember 13, 2003

Ég bæti inn link á minn ágæta fornvin og bekkjabróður, Jóhann Þórsson.
Með því verður að fylgja afar eftirminnileg saga af þeim ágæta dreng.
Þetta var þegar við Kristín bjuggum saman á vistinni í MA og þar bjó einmitt líka téður Jóhann. Eitt kvöldið sem oftar var legið inni á herbergi og kjaftað og menn voru orðnir syfjaðir og rómó og við fórum að trúa hvert öðru fyrir því sem við elskuðum mest af öllu í heiminum. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að gera sjálfri mér né Kristínu þann grikk að rifja okkar hluta upp, en hér kemur Jóhanns. Hann sagði okkur að þegar hann hefði búið úti í Ísrael, þá hafi hann átt páfagauk. Svona risastóran og flottan (eins og KÍKÍ í ævintýrabókunum) sem gat talað. Hann sagði okkur að honum hefði þótt meira vænt um fuglinn en nokkuð annað og hann vissi hreinlega ekki hvað hann hefði gert ef eitthvað slæmt hefði hent fuglinn hans. Við Kristín vorum hljóðar af lotningu en spurðum að lokum hvað hefði orðið af fuglinum. "Ég seldi hann"

Hey einnig verður að fylgja með ástæða þess að maðurinn var aldrei nokkurn tímann kallaður nokkuð annað en "Jói Krói" Það er ekki vegna þess að hann hafi verið svo krakkalegur, heldur vegna þess að hann kom í MA beint frá Króatíu þar sem hann hafði átt heima með foreldrum sínum. Króatía, Ísrael......... Pabbi hans vann hjá SÞ. Þar hafið þið það.

Hahaha....... mér finnst það ógeðslega fyndið að Keikó sé dauður.
Keikó, Keikó hann kemur...
Nei, nú er víst útséð um það að hann komi nokkuð meir.

föstudagur, desember 12, 2003

Djöfull er andskoti gaman að lifa!!
Ég elska fjölskyldu mína, líka svörtu sauðina!
Ég elska að sponsa!
Ég elska vini mína!
Ég elska uber hjálpsama bekkinn minn, sem er svo óeigingjarn að það hálfa væri nóg!
Ég elska leynifélagið mitt!
Ég elska sörurnar sem ég bakaði í gær!

Þetta gerist ekki öllu betra, og jólin eru að koma!

Jólasveinarnir eru komnir til byggða. Þeirra varð áþreifanlega vart hér í Eskihlíð 16 b í nótt. Til að byrja með var Ingvar í allan gærdag eins og hann hefði étið óðs manns skít, af æsingi yfir komu jólasveinsins. Svo fór minn í náttgallann upp úr 19.00 og í rúmið 19.30. Það leist mér nú ekki sem best á. Sá fram á að drengurinn yrði árrisull. Hann sofnaði að lokum eftir að hafa gólað nokkrum sinnum nokkrar tæknilegar útfærslur á staðsetningu skósins. Anyways. Ég var að læra til 2 í nótt og þegar ég var að hafa mig í rúmið, rumskar Ingvar og kallar; "Hver er að ganga um?!". Og átti, held ég, von á að þar færi sjálfur Stekkjastaur. Hann rauk upp og kveikti ljósið og ætlaði að skoða í skóinn en ég gat stoppað hann og stýrt honum aftur, hálfsofandi í rúmið. Sjálf næ ég að sofna um 3 leitið og vakna aftur 5.30 með alsælan Ingvar, hoppandi í rúminu mínu af kæti yfir stækkunarglerinu sem Stekkjastaur hafði fært honum.

Drottin veri með mér. Það eru 12 svona nætur framundan. Vonandi verður þetta minna spennandi næst. Ég man ekki eftir því að þetta hafi verið svona erfitt áður. En ætli þetta sé ekki í síðasta skipti sem drengurinn fær í skóinn í sakleysi sínu. Næsta haust verður hann í skóla og þar hefur Jólasveinninn verið tekinn af lífi árum saman. Samt þarf ég að gefa barninu í skóinn í 6 ár í viðbót. Baldur fær nú enn í skóinn á aðfangadag.

Ég var á síðasta ári í leikskóla þegar mér var sagt að Jólasveinninn væri ekki til. Mömmur og pabbar gæfu í skóinn. Ég réðst á viðkomandi og beit hann í gegnum tárin.

Athyglisverðast af öllu er þó að í gærmorgun fékk einn drengurinn á Ingvars deild í skóinn. Vakti þetta að vonum mikla undrun. Hvernig gat nokkur jafn óskeikull og sjálfur Jólasveinninn ruglast svona? Ég veit það. Þessi jólasveinn kemur á sumarskemmtun leikskólans á pinnahælum og vinnur í 17 í Kringlunni. Ekki alveg í tengslum við raunveruleikann sú.

fimmtudagur, desember 11, 2003

Snilld!! Ég hata ruslpóst.

Nú lýsi ég því yfir og fer ekki ofan af því, að ég á mágkonu. Öll vötn liggja til Dýrafjarðar og það gera líka rökin í þessu máli. Þetta á reyndar að heita svilkona en það þykir mér of ljótt orð til að nota svo mágkona er það!! Þetta er kvenkostur hinn mesti, ekkert síður en Auður hans Gísla Súrssonar, fyrst við erum í þeim fasanum. Svo er hún kollegi okkar, hún er reyndar miklu klárari en við Baldur við samans, en það er ekkert verra.....ekki fyrir mig allavega, enda voru þau ófá símtölin fyrir prófið. En er til nucleus lacrimalis? Hvar er hann?? Og ófá voru svörin, ávallt á reiðum höndum. Já maður verður svo glaður að maður er hreinlega klökkur. Nei, andskotinn þarna fór ég með það.

Það er með hryggum hug sem ég kippi út linknum á Drekann. Nú er einhver önnur Hadda með urlið, sú á mann sem heitir Jói og barn sem heitir Sveinn og fer í sund. Sem er nákvæmlega miklu meira en ég þarf að vita um þetta fólk.

miðvikudagur, desember 10, 2003

Próf dauðans að baki. Mikið er það nú gott.

þriðjudagur, desember 09, 2003

Nú er auglýst í gríð og erg undirfatasýning Victoria secret á stöð 2, og klykkt er út með; "Stöð 2, stelpustöð á miðvikudögum". Einhverra hluta vegna læðist að mér sá grunur að einhver annar á heimilinu en ég hafi áhuga á þessari undirfatasýningu. Sá er einmitt ekki stelpa.
Annað varðandi þessa stelpustöð. Ég fæ æluna upp í háls um tilhugsunina að ég eigi að horfa á stelpuefni á stelpustöðinni vegna þess að ég sé stelpa. OJBJAKK!! Andskotans viðbjóður. Vitsmunir mínir eru yfir þetta hafnir.
Nú koma inn um lúguna hjá mér allskyns dótabæklingar fyrir jólin. Um daginn fékk ég bækling frá Leikbæ sem ég fletti í gegn, í leit að hugmynd að jólagjöf, og rek þá augun í litla stelpu með dóta RÆSTIVAGN. æðislega hamingjusöm að fá að skúra í þykjó, eins og mamma og amma. Ég myndi vilja gefa veiðileyfi á það foreldri sem gæfi dóttur sinni þessa gjöf. Sem betur fer held ég hreinlega að það foreldri fyrirfinnist ekki. Ef svo er þá horfir hún örugglega á stelpustöð á miðvikudögum.

sunnudagur, desember 07, 2003

Kemur reyndar ekki á óvart.......



Find your inner Smurf!



Ég er ekkert sjálfumglöð. Þetta er bara kalt mat. Prófið lýgur ekki!!!

laugardagur, desember 06, 2003

Okei nú er ég bara að blogga af því að ég nenni ekki að læra trigonum caroticum...........

Eitt enn...........
Family guy er nýja uppáhaldið mitt. Ég elska svona white trash í hnotskurn. Hvað er málið með Oxford hreiminn hjá bleiubarninu??

Viggó Morthensen var á Flórída áðan. Ég var náttúrulega alveg að tapa mér allan fundinn og lét Bergþóru ekki í friði með pískri og bendingum. Ég var raunverulega alveg viss um þetta væri hann. Það er löngu búið að sýna sig og sanna að allt hæfileikaríkt fólk tilheyrir klúbbnum og því ekki hann????? En svo sneri ég mér að annari vinkonu minni til að sýna henni Viggo og þá reyndist þetta vera vinur hennar, Freyr (dulnefni). Ég varð fyrir hrikalegum vonbrigðum og sneri mér að Bergþóru til að tilkynna henni að Viggo reyndist heita Freyr. En það var samt geðveikt á Flórida. Rock on. Enn einn mánuðurinn í safnið í gær. Ellefu eru mánuðirnir orðnir, ómægod, hvar endar þetta?? Sennilegast í eilífðinni.

fimmtudagur, desember 04, 2003

Híhíhí, hnefaleikamenn teknir fyrir stórfellt kókaínsmygl. Jólin eru komin hjá Hjalta Má Björnssyni!!!!

miðvikudagur, desember 03, 2003

Það virðast allir fá bloggæði í próftíð nema ég. Ég ætla að gefa þessu smá séns að bloggandinn komi yfir mig á ný, ef ekki þá slekk ég á þessari dauðans síðu. Það er ekkert ömurlegra en ógeðslega lélegt blogg. Ég veit reyndar ekki hvers vegna sumt fólk heldur úti bloggi en þetta er víst frjáls heimur.................því miður, ég myndi svo gjarnan vilja breyta ýmsu, but well.

Ég er að lesa undir fokking próf dauðans. Fokking haus og háls. Fossa pterygopalatina, umgjörð og innihald. Orbita, umgjörð og innihald. Fossa infratemporalis, umgjörð og innihald og svona væri hægt að halda lengi áfram..........ef ég héldi að einhver nennti að lesa það. Parasympatisk ganglion í höfði eru mér auk þess afar hugleikin, ekki á jákvæðan hátt. Ég hugsa að lesendur (ef einhverjir eru) séu jafn nálægt því að æla og ég.