luxatio hugans

awakening

sunnudagur, júlí 30, 2006

Ólund

Ég er kannski með ólund, en er þessi mynd ekki örugglega tekin FYRIR aðgerð?? Ólundar Allý

Veðurillskan

Veðrið er fyrirbæri sem er illa innrætt. Verstu morðingjar eru ekki svo útsmognir og kaldrifjaðir sem veðrið er. Fór áðan í grenjandi rigningu að kaupa mér regnhlíf fyrir tónleika Sigurrósar (sem ég heyri að eru að æfa sig núna). Þegar þetta er ritað, er engin rigning. Það er að létta til. Gott ef ekki sést til sólar. Sem er ágætt reyndar. Pirrandi að eiga regnhlíf samt.

laugardagur, júlí 29, 2006

Hnetukrapp

Var á Grænum Kosti að ná mér í kvöldmat. Inni voru tveir breskir túristar og þegar þeir löbbuðu út báðu þeir um að fá að mynda staðinn. WTF??
"Can I please photograph this resturant?"
Fer myndin í ramma í UK?
Ég var að ná í hnetusteik fyrir fjölskylduna á Grænan Kost og þrátt fyrir að ég hafi horft munúðarfullt í augun á eiginmanni mínum yfir steikinni þá var ég allan tímann að hugsa um þig Auja. Færðu hnetusteik í States?

Verðlaunahrútur

Þetta minnir mig á söguna af verðlaunahrútnum Sóma sem eitt sinn var sögð, röngum aðila, á röngum stað, á rangri stundu. Maður þarf að velja VEL áheyrendur sína þegar stendur til að segja sögur af verðlaunasauðfé.

Word

Ég hefði ekki getað orðað þetta betur sjálf;) Segir allt sem segja þarf um brenglaða forgangsröðun í takmörkuðum, litlum efnishyggjuhausum. Maður fyllist meðaumkun með fólki sem á sér ekki mikilvægari baráttumál. Hrokalaust þó.

mánudagur, júlí 24, 2006

Útilega í Vík

Fór í snilldar útilegu í Vík um helgina. Er svo sólbrunnin í framan að það er ekki fyndið. En það verður fallegt seinna. Þegar ég verð brún og leðurskorpin í framan. Þá verð ég undurfögur. Jamm. Við Doddi hentumst bara með börn og tjaldvagn og æddum af stað. Þegar á Vík var komið var fyrsta konan sem við sáum á Halldórskaffi, Kristbjörg Olsen, læknisfrú á Vík. Mér finnst Olsen virðulegt. Mér finnst að Siggi eigi að taka upp eftirnafnið Olsen. Svo geta þau opnað Olsen´s läkeraklinik og rakað inn peningum af því að fólk snobbar fyrir eftirnöfnum. Nema náttúrulega að óþokkaskapur Nelliar Olsen sitji í þjóðinni, þá mun þetta snúast í höndunum á þeim. En mörlandinn er fljótur að fyrirgefa og fer sennilega ekkert að heimfæra ótuktarskapinn á Olsen fjölskylduna á Grandanum. Svo mættu á laugardeginum til okkar Laxdal fjölskyldan. Starfandi yfirlæknir á Dalvík tók sér frí til að leggjast í ferðalög svo á þessu má augljóslega sjá að við Doddi þekkjum bara fínt fólk með fín nöfn. Megum bara vera þakklát fyrir að fá að vera með. Ég var svo á sunnudeginum kosin kappsamasti keppandinn í "SVÍN". Í kjörnefnd sat einn maður, Snorri Laxdal. Hefði heldur viljað vera besti keppandinn en það var víst frátekið fyrir aðra. Sem er náttúrulega stórfurðulegt.

fimmtudagur, júlí 20, 2006

Kaffiklám

Ég var að dásama kaffið úr kaffivélinni minni í vinnunni í morgun. Var ég þá spurð af samstarfsfélaga mínum hvort kaffið úr kaffivélinni minni væri betra en kynlíf. Nú veit ég ekki hvurs lags dryhump kynlífi samstarfsfélaginn hefur lifað í gegn um tíðina, en nei, kaffið úr kaffivélinni minn nýju er ekki betra en kynlíf.

laugardagur, júlí 15, 2006

Meðvirknisæfing

Ég ákvað að fylgja fordæmi Jóa Króa og henti út tenglum sem blogga uþb 2x á ári eða svo. Reyndar var Jóhann kurteisari en ég og gaf fólki fyrirvara, ég nenni því ekki. Það mun engu breyta. Við ykkur sem var kastað út vil ég segja að ég elska ykkur ennþá, þetta er ekkert persónulegt, ég verð bara svo ergileg að vera alltaf að fara inn á síðurnar og sjá færslur frá 4. júní. Að auki var fólki endurraðað eftir dugnaði. Hulda var sett efst og það er ástæða fyrir því. Ég get nánast gengið að því vísu dag hvern að það sé ný færsla. Auk þess bloggar hún frekar oft um mig og það líkar mér. Líf og fjör.

Nýja ástin í lífi mínu


er Saeco Incanto de Luxe. Þessi mynd ætti að duga ágætlega til að vekja öfund hjá lesendum síðunnar sem ófærir eru um að samgleðjast. Hinir eru svo guðvelkomnir í kaffi. Ég er búin að vera óstöðvandi í að flóa mjólk síðustu daga, og kaffisírópsbragðtegundirnar telja tvær í dag. Ó mín fagra, ósérplægna vinkona. Á morgnum sem þessum, þegar Ester Helga hefur upp raust sína fyrir 07.00, er ekkert eins unaðslegt eins og að skella bollanum undir stútinn og panta dobbel expresso án þess að þurfa að opna augun á meðan.

Hér kemur ein pæling. Þar sem við hjónin fengum 3 slíkar kaffivélar + inneignarnótu sem eyrnarmerkt var kaffivél, mætti þá túlka það þannig að við séum sérlegt áhugafólk um kaffi? Tala ég um lítið annað en kaffi? KOFFEEEEIIIIIN!!! Maður spyr sig. Því auk vélanna fengum við mjög listrænt Eva Solo kaffisett, kaffibolla fengum við, afar fancy hitabrúsa og svona mætti áfram telja. Allavega er ég sólgin í nýja kaffið mitt og stend eins og róni á Kaffi Austurstræti og skelli í mig á kortersfresti. Nú er einmitt kominn tími á bolla. Heyrumst.

föstudagur, júlí 14, 2006

Gátlisti

Í mörgum störfum er stuðst við gátlista, og er það vel. Til dæmis, í flugumferðareftirliti, þá er stuðst við gátlista þegar farið er yfir flugvélarnar. Sem farþegi í vélinni vil ég einmitt trúa því að það hafi ekki verið neitt atriði á gátlistanum sem gleymdist, heldur að stuðst hafi verið við listann og krossað samviskusamlega við.

En hvað þá með krufningarnar? Hvernig á hæstvirtur Obducent að muna hvort hann sé búinn að skoða allt? Væri ekki gott að eiga gátlista þar?
Þessu vakti ég máls á, við minn ágæta samstarfs obducent í gærmorgun. Þá vildi svo skemmtilega til að ég var búin að vera með lagið Furðuverk, sem Rut söng um árið, á heilanum frá því um helgina þar áður. En nú er það einmitt svo, að lagið Furðuverk, dugar sem ágætis gátlisti fyrir krufningu. Eða svo gott sem. Það mætti bæta við erindi sem segir:

Ég hef eitt splen, en tvö ren
og glandulae adrenalis hjá.

æi ég þarf að útfæra þetta betur. Pétur Snæbjörns setti reyndar út á að það vantaði kalkkirtlana í textann, en þá, er einmitt oft erfitt að finna. En meðfylgjandi er textinn hennar Rutar. Uppáhaldskaflinn minn er: Eina tungu og tvö lungu........

Furðuverk

Ég á augu, ég á eyru
ég á lítið skrítið nef.
Ég á augabrúnir, augnalok
sem lokast þegar ég sef.
Ég á kinnar og varir rauðar
og á höfði hef ég hár.
Eina tungu og tvö lungu
og heila sem er klár.

Ég á tennur og blóð sem rennur
og hjarta sem að slær.
Tvær hendur og tvo fætur,
tíu fingur og tíu tær.
Ég get gengið, ég get hlaupið,
kann að tala mannamál.
Ég á bakhlið, ég á framhlið
en innst inni hef ég sál.

Því ég er furðuverk,
algjört furðuverk,
sem að Guð bjó til.
Ég er furðuverk,
algjört furðuverk,
lítið samt ég skil.

þriðjudagur, júlí 11, 2006

Ingvar yfir úrslitaleiknum:

"Ég er viss um að konan hans Zidane rekur hann út þegar hann kemur heim"

mánudagur, júlí 10, 2006

Skjótt skipast.........

Fögur brúður á laugardagskvöldi, aðstoðarlæknir með innihald úr nýrnacystu í andlitinu á mánudagsmorgni. Uhm...... ljóminn yfir lífi mínu.
Gyða systir stal senunni í brúðkaupinu mínu. Ég ætla að uppgötva minn, enn leynda hæfileika og þjálfa hann fram að brúðkaupi Gyðu. Svo ætla ég að stela senunni í hennar brúðkaupi. Eða...... ef leyndi hæfileikinn leynist mér um ókomna tíð, þá mun ég mæta í flottari brúðarkjól en hún í hennar brúðkaup. Nei djók. Mér fannst sturlað gaman hvað hún var glæsileg. Hljómsveitin talaði enn um það daginn eftir að þeir hefðu aldrei upplifað annað eins. Og allir gestirnir mínir. Ég þakka ykkur fyrir að gera sturlað skemmtilegt. Það eru nefnilega gestirnir sem gera svona skemmtilegt. Það er hægt að skipuleggja fram í rauðan dauðann en það er ekki hægt að skipuleggja að það verði skemmtilegt. Best er náttúrulega að skipuleggja sem minnst....... eða bara ekki neitt;)
Líf og fjör