luxatio hugans

awakening

mánudagur, febrúar 26, 2007

Helgaruppgjörið

Jæja mér leiðist að hafa þessar klámfærslur efstar á síðunni minni og skal nú snúið að öðru. Við fórum á árshátíð árshátíðarborðisins á föstudagskvöldið og var það mjög skemmtilegt enda hresst og yfir meðallagi vel gefið fólk sem þar kom saman. Ester fór á slysó á laugardagskvöldið þar sem hún fékk í sig þrjá sauma og stóð hún sig eins og hetja. Tvö afmæli á sunnudeginum, eitt andans afmæli og eitt chronologiskt afmæli. Því fór fram viðurstyggilegt át á sunnudeginum og það líkar mér eigi. Ég hitti líka nýja tengdasoninn í Þórshamri og leist mér vel á það sem ég sá. Í kvöld ætla ég svo út að borða með tveim andlegum leiðbeinendum mínum. Ég verð þokkalega andlega heilbrigð eftir það. Currently er það partý-múlinn með góðum bekkjarfélögum mínum og ég segi góðum þrátt fyrir að ein vinkonan sé komin með þá hvimleiðu áráttu að láta gynskoða sig og notar nú hvert tækifæri til þess. Það er nú eitt að láta fagmenn um þetta en það er vafasamt að vera að slasa sig við einhverjar heimagynskoðanir með alls kyns áhöldum sem ekki eru til þess fallin. En það er með þessa fíkn eins og aðrar. Fólk verður sjálft að finna botninn.

fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Sigur?

Það er ekki hægt að segja annað en að sigur hafi hlotist í klámfárinu ógurlega. Það lítur allavega út fyrir að ekki verði haldin nein klámráðstefna hér.
Að lokum verð ég þó að segja að ég skil ekki fólk sem er að agnúast út í það að ráðamenn þjóðarinnar og borgarinnar hafi sóað dýrmætum vinnutíma í það að lýsa andstöðu sinni við málið. Klám er ólöglegt á Íslandi og menn sem fara með löggjöfina í þessu landi eru að taka afstöðu gegn þessum iðnaði. Því ég ítreka það að þetta er bara svart eða hvítt. Ef þú ert ekki á móti þessu þá ertu að stuðla að þessu. Það er engin afsökun að þykjast vera hlutlaus bystander sem vill leyfa fólki að lifa sínu lífi eins og það kýs. Það þarf bara vitundarvakningu. Það þarf að uppræta þetta mein. Það er að alast upp kynslóð ungra drengja sem halda að stelpur séu kynóðar, fái fullnægingu við endaþarmsmök og elski að fá brund yfir andlitið. Svo fara þessir strákar í sambönd með ungum stelpum og upplifa höfnun af því að þeir fá ekki það sem "kynfræðslan þeirra" kenndi þeim að þeim bæri að fá í sambandi. Pressan er á stelpunum sem gera allan fjárann gegn eigin vilja til að þóknast, til að vera ekki taldar kynkaldar eða þurrkuntur og sjálfsvirðingin fer síminnkandi. Þetta er brenglun. Sjúkleg brenglun. Ég skammast mín bara EKKERT fyrir það að vera talin tepra sem horfir ekki á klám. Ég er bara nokkuð ánægð með það val mitt í lífinu.

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Klámráðstefnufárið

Ég þoli það ekki að það sé kúl að vera fylgjandi því að hér sé haldin klámráðstefna en hallærislegt kerlinga-, eða jafnvel blótsyrðið feministavæl, að vera á móti henni. Móðursýki! hrópa menn (og konur) sem eru svo svalir að þeir láta ekki sýki kennda við leg ná tökum á sér. Oj eins og það er nú viðbjóðslegt að vera með leg þrátt fyrir að það hafi fóstrað allar lifandi verur, líka jakkafataklædda peningastráka, inn í þennan heim. Málið er, frá mínum bæjardyrum séð, að ekki er hægt að halda því fram að maður sé fylgjandi klámi, svo framarlega að það séu hamingjusamar konur sem tóku upplýsta ákvörðun um að misbjóða líkama sínum á þennan hátt en bara ekki hinu kláminu þar sem ofbeldi og misnotkun hefur átt sér stað. Þarna á milli er grá lína, óljós lína, eða bara jafnvel engin lína. Það er eftirspurnin eftir klámi sem skapar þennan iðnað. Það er eftirspurnin sem skapar markað fyrir það að konum og börnum er rænt, þau seld, nauðgað og myrt út um allan heim og afurðin er seld. Þetta er viðbjóðslegt og það ekki hægt að vera með fullu viti og halda því fram að maður skapi einungis eftirspurn eftir "heilbrigða, jákvæða" kláminu. Svo lengi sem að það er eftirspurn þá mun þetta mansal með konur og börn eiga sér stað. En þetta er sjálfsagt eins og með dópstríðið, tapað stríð sem mun aldrei vinnast. En í guðanna bænum sjáið þá samt sóma ykkar í því að segja með stolti að þið séuð á móti klámiðnaðinum. Því það er ekkert móðursýkislegt við það að vilja ekki að konum og börnum sé nauðgað í ágóðaskyni. Og hvað hamingjusömu klámmyndaleikarana varðar, þá þarf enginn að segja mér það að þar liggi ekki eymd að baki. Það gerir enginn svona með heilbrigða sjálfsvirðingu. Það þarf ekkert að segja mér það. Svo ef þið eruð enn í vafa hver skoðun mín er þá finnst mér svívirða að hýsa einhverja klámráðstefnu hér og bara allt í lagi að mótmæla og láta þessi ráðstefnugesti vita að það er enn til fólk með heilbrigð viðhorf.

mánudagur, febrúar 19, 2007

Lánsöm stúlka

Hver ætli hin heppna sé? Þvílíkur fengur að ganga í hnapphelduna með einum svona flippuðum og auk þess töff.

laugardagur, febrúar 17, 2007

Kynþokkafyllst

Ég var kjörin kynþokkafyllsta kona landsins af hlustendum Rásar 2 í gær. Ég þakka kærlega fyrir það, þetta er jú viss heiður sem mér er sýndur. Þó verð ég að segja að þetta breytir lífi mínu merkilega lítið. Same old, same old.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Vika búin á Kvennadeildinni og ekki eitt orð!

Það er ekki nokkur frammistaða. Það er búið að vera alveg hryllilega gaman, án efa með því skemmtilegasta sem ég hef gert í þessari deild. 3 Keisarar, 1 fæðing og bara líf og fjör. Ég er búin að vera mikið með Hildusi og hef verið að æfa mig í því að gynskoða hana. Það hefur bara gengið mjög vel. Mest hressandi var þó fyrsti fyrirlesturinn með Jens, þegar hann vatt sér inn, byrjaði að dreifa blöðum og sagði að nú yrði próf. Prófið var tíðahringurinn. Inn á blaðið áttum við að merkja hormón frá undirstúku, heiladingli og eggjastokkum og rissa létt gröf á tímaás sem sýndu hvar þau toppa og jafnframt hvað væri þá að gerast í legslímhúðinni. Svipurinn á hópnum var óborganlegur, en við sem erum með eggjastokka vorum þó sýnu skömmustulegastar. Það er soltið lummó að vera ekki með glóru hvað er á seyði. Mar kunni þetta reyndar upp á picomól í Clausus en það eru nokkur ár síðan það var. Jæja ekki batnaði það þegar hann spurði okkur út úr eitt og eitt í einu. Allir komust þó heilir og fróðari frá þessu. Þegar ég kom heim og sagði Dodda frá þessu þá sagði hann: "Æi já, ég hefði átt að segja þér þetta, hann gerir þetta á hverju ári."
Hvar er ávinningurinn af því að búa með Kandídat?

Innri fegurð er ofmetin

Því hef ég komist að.

Ég ER barnsfaðir Önnu Nicole Smith!!

Muhahahaha. Nei annars, ég er að fokka í ykkur. Ég er ekki barnsfaðir Önnu. Mér fannst þetta bara fyndið af því að ég er búin að fara inn á hverja bloggsíðuna á fætur annari í dag þar sem menn eru að sverja af sér að vera barnsfeður hennar. Ég er öðruvísi, hipp og kúl.

laugardagur, febrúar 10, 2007

800 ár eða 8 mánuðir??

Karlmaður sem hefði misnotað þrjá drengi kynferðislega hefði hugsanlega fengið 8 mánaða skilorðsbundinn dóm á Íslandi. Einhverjum kynni að finnast 800 ára fangelsisdómur dálítið gróft en ég er ekki ein af þeim. Ef það vantar endalaus fordæmi getur þetta þá ekki verið fordæmi? Djók, ég geri mér fullkomlega grein fyrir að það virkar ekki þannig, þá gætum við allt eins farið að höggva hendur af búðahnuplurum, en þið vitið hvað ég meina.
Það þarf að taka menn, sem færustu meðferðaraðlilar segja að séu ekki meðferðarhæfir, úr umferð. Annars erum við bara að velja það að börnin okkar séu þáttakendur í rússneskri rúllettu sem þau skráðu sig aldrei í.

þriðjudagur, febrúar 06, 2007

Nokkrir klukkutímar

í próf í erfðalæknisfræði og ég er að tryllast. Hvern get ég lamið? BHI er vissulega augljós kostur en SÁ er líka girnilegur kandidat. HPM og HG eru svo miklar kveifar að ég fer nú varla að vaða í þær hvað þá hina ljúfu HV eða DP sem er næstum eins viðkvæm og misskilin og ég. ÞH er flúin svo það er útrætt mál. Nei, ég hallast helst að BHI enda kom það fyrst upp í hugann og maður á alltaf að fylgja hugboðum sínum. BHI! Þú verður þokkalega laminn á eftir og bara vegna þess að mér leiðist að lesa undir erfðalæknisfræðipróf! Þeir sem segja að ofbeldi leysi engan vanda hafa bara ekki prófað það að lúskra á einhverjum til að fá útrás. Ofbeldi virkar fínt!!

sunnudagur, febrúar 04, 2007

Fótboltamaðurinn

Tengdapabbi bauð öllum sínum börnum og tengdabörnum í mat í kvöld. Ingvar jr. sagðist vera með fréttir, bæði góðar fréttir og slæmar fréttir. Hann sagði að venjan væri nú sú að byrja á slæmu fréttunum en að í þessu tilfelli ætti það ekki við og því ætlaði hann að byrja á góðu fréttunum.
"Góðu fréttirnar eru þær að ég var að keppa í fótbolta í dag við KR. Slæmu fréttirnar eru þær að við töpuðum 20-7"

föstudagur, febrúar 02, 2007

Píanistinn

Ingvar er nú á sínum þriðja vetri í píanónámi og þar áður var hann einn vetur í forskóla á blokkflautu. Þetta er massívt enda hefur það aldrei verið meiningin hjá okkur Þóroddi að koma einhverjum aukvisum eða meðaljónum á legg. Hann er orðinn býsna góður og farinn að spila lög sem eru virkilega skemmtileg, til að mynda er ég alltaf að biðja hann um að spila fyrir mig lagið sem hann á að æfa í þessari viku því það er alveg sjúklega kúl.
Þegar afhending tónlistarverðlaunanna var um daginn þá spilaði Víkingur Heiðar, mesta prodigy landins, eitt verk. Ég kallaði í Ingvar og spurði hann hvort hann væri jafn góður og Víkingur. Hann hlustaði á nokkra takta, hugsaði sig aðeins um og svaraði svo: Nei hann er aðeins betri en ég.

Eruð þér að gera gys?






















Kæru Gunnlaugur, Hrafn, Markús, Árni og Garðar. Almenningur er fyrir löngu búinn að fá nóg af því að dómskerfið haldi hlífiskildi yfir viðbjóðslegum barnaníðingum. Ég kann ekkert í lögfræði, ég viðurkenni það fúslega, en ég er með ágætis siðferðisvitund og henni er misboðið.

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Nenniði að hætta að dýrka mig PLEASE!

Ég er mannvera!
Hjúkrunarfræðingar í USA standa að samtökum um birtingarmynd hjúkrunarfræðinga í fjölmiðlum. Ár hvert verðlauna þau þá sem að þeirra mati gáfu bestu myndina af störfum hjúkrunarfræðinga í fjölmiðlum en einnig eru veitt skammarverðlaun þeim sem draga upp skekkta mynd af hjúkrunarfræðingum. Má þar nefna þætti eins og Gray´s anatomy, ER og House. Þessum þáttum er fundið það til foráttu að læknar eru þar allt í öllu. Setja upp nálar, sjá um sálgæslu, fræðslu sjúklinga, og eru auk þess í heroic act við að bjarga lífum. Sem er náttúrulega sjúklega pirrandi að horfa uppá. Auðvitað eru það hjúkrunarfræðingarnir sem veita nærveruna. Inn á síðunni er hægt að smella á link og senda þar með tilbúið bréf til framleiðenda þessara þátta þar sem þeir eru beðnir um að hætta að draga upp þessa mynd af lufsulegum hjúkkum sem ekkert vita og geta. Hvet ég nú alla til þess. Því eins og forsvarsmenn samtakanna segja svo réttilega: Það er kominn tími til að upphafningu og dýrkun á læknum ljúki. Ég er hjartanlega sammála. Hættið að upphefja mig og dýrka. Farið heldur að upphefja og dýrka Gísla Kort. The Male Nurse. Það er sönn hetja. Hvað með það þó hann sé með leg? Hann er ekkert verri fyrir því. Spyrjið bara Þórólf.

Allý bloggaðu! Allý bloggaðu!

Þessi ósköp dynja á mér úr öllum áttum. Hey! Ég er í prófum! Ég get ekkert verið að hanga á netinu klukkustundum saman. Ég er viðkvæm, eins og lítið blóm, með titrandi tár, ég tilbið guð minn en ég ætla ekkert að fara að hrökkva upp af strax. Kannski ég hendi inn einni færslu samt. Til að róa aðdáendur mína.