luxatio hugans

awakening

miðvikudagur, mars 28, 2007

Ómægod

Það er ráðningafundur í kvöld og ég veit ekki enn hvert ég fer. Hvað skal gera? Hvað skal gera? Mér er kalt, ég er með stirða fingur, það er svitalykt af mér og ég er ekki búin að borða hvorki vott né þurrt í allan dag ef undanskildir eru "nokkrir" kaffibollar í morgun. Ohh mér er óglatt.

Fjárans heiðarleikinn

MaggaVaff hringdi í mig í gær og vildi endilega leggja inn á mig pening. En af því að ég er búin að sóa síðustu fjórum árum ævi minnar í einhverju heiðarleikaprógrammi þá sagði ég henni satt og rétt frá. Ég sagði henni að frú B. hefði borgað fyrir hana tvo Latté en ekki ég. Þarna hafði 10, 11 og 12 af mér sexhundruð krónur. 600 krónur. Kannski ekki mikill peningur en hún mamma mín segir alltaf að maður tínir ekki 600 krónur upp úr götunni þegar rætt er um fjárhæðir sem engu máli virðast skipta. Þar hefur hún mikið rétt fyrir sér. Hvenær hefur 10, 11 og 12 gefið mér eitthvað?? Eins gott að ég leyfi ekki komment því þá myndu Auja og Björgvin örugglega byrja að þusa eitthvað um gildi 10, 11 og 12 í mínu lífi.

sunnudagur, mars 25, 2007

Mestu framfarirnar

Æi Ingvar krútt. Það verður sjálfsagt seint um hann sagt að hann sé besti fótboltamaður sem þetta land hefur alið, en frá tveimur þjálfurum hef ég heyrt að hann sé svo skemmtilegur að það sé ómetanlegt að hafa hann innanborðs. Ég hef horft á leiki og spurt sjálfa mig hvort knattspyrna sé nokkuð hans hilla í lífinu en Ingvar er ekkert að pæla í því. Hann fílar stemninguna, búningana og umgjörðina. Að loknu Goðamóti tapaði liðið hans öllum leikjunum nema einum en strákarnir voru hressir með þetta og hrikalega glaðir að vera í keppnisferð. Ingvar hughreysti markmanninn og sagði honum að það væri ekkert honum að kenna þó að öll þessi mörk hefðu verið skoruð hjá honum, heldur bara liðinu öllu:) Sem er náttúrulega dagsatt, en réttsýnn er drengurinn minn. Eftir síðasta leikinn var Doddi svo að hrósa Ingvari fyrir baráttuna í leiknum og þá kom Agnar þjálfari og sagði: "Já hann Ingvar hefur sko tekið gríðarlegum framförum í vetur. Nú er hann farinn að fylgjast með því hvar á vellinum boltinn er!" Og trúið mér. Ég hef horft á Ingvar spila heilu knattspyrnuleikina þar sem hann hafði ekki hugmynd um það hvar boltinn var, né á hvaða mark hann var að reyna að skora. Þrátt fyrir þessar "gríðarlegu framfarir" þá efast ég nú samt um að hann eigi eftir að gera mömmu gömlu ríka í atvinnumennsku en hann mun eflaust halda áfram að gleðja mig með óborganlegum kommentum.

SULTUR

er orð sem mér finnst ekki notað nógu mikið í tengslum við að vera svangur. Að vera soltinn er eitthvað svo skemmtilega dramatískt og myndrænt. Akkúrat núna er ég soltin en kökuprinsessunni, Dr. Maack, finnst að ég geti beðið til kl. 15.00 með að borða köku. Maður þrætir ekkert við þann sem kom með kökuna. Sá sem kemur með kökuna ræður hvenær kakan er étin. Svolítið sovéskt eitthvað en þannig er það nú samt.

Leiðinleg blogg

Ég fór á kaffihús í gærkvöldi með nokkrum hressum meðlimum samtaka iðnaðarins. (Sorry S. að ég sé að stela þessu, þetta er bara svo ágætt hugtak) Þar barst í tal bloggfárið. Allir eru að blogga en hverjir eru að lesa? Við MV og S. vorum náttúrulega á einu máli um það að okkar blogg bæru af. Mér finnst voða gaman að lesa absurd blogg. Ég reyni líka sjálf að skrifa í absurdisma, einfaldlega af því að mér finnst það skemmtilegast. Sumir eru að skrifa um daginn og veginn en gera það vel, þannig að það er mjög skemmtilegt að fylgjast með. Þá kannski sér í lagi blogg vina í öðrum löndum eða heimsálfum. Hins vegar er það náttúrulega staðreynd að það er til mjög mikið af leiðinlegum bloggsíðum. Sumar eru alveg hrútleiðinlegar. Dagbókarstíllinn sem hefur ekkert fyndið eða óvenjulegt fram að færa. Það eru leiðinlegustu bloggin. Því fannst mér svo ágætt að rekast á þessa bók. Megi hún lýsa sem flestum leiðina. Annars veit ég náttúrulega ekkert um innihald þessarar bókar, en titillinn lofar góðu;)

laugardagur, mars 24, 2007

Flórídaferð

Það hafði við samband kona ein áðan og spurði hvort ég kæmi með henni og fleiri konum til Flórída í kvöld. Ég tók vel í það enda ekki annað hægt. Nú vona ég bara að ég finni passann minn í tæka tíð.

Fjölmiðlafárið
















Sonurinn gefur föðurnum ekkert eftir í fjölmiðlaumfjölluninni heldur fær drengurinn bara sér færslu um sig af Goðamótinu. Já það er sko bara skemmtilegast að vera með. Líkur mömmu sinni með þetta andlega jafnvægi og yfirvegun. Alveg laus við alla veraldlega forgangsröðun. Flottastur kallinn!!!

Örvænting II

"Af hverju var ég að borða allan þennan mat og allt þetta nammi?" hugsaði sadda, feita konan, þar sem hún sat við tölvuna og gekk ekkert betur að einbeita sér að lestrinum.

Örvænting

"Af hverju get ég ekki einbeitt mér að lestrinum?" hugsaði svanga konan.

Íslenskar nafngiftir


Hví hefur íslenska þjóðin alist upp við það í margar kynslóðir að JACOB´S CREAM CRACKERS heiti tekex?

Týpískt Doddi

að troða sér á forsíðu mbl.is tvo daga í röð. Fyrst fyrir að lenda í 12 bíla árekstri á Holtavörðuheiði og svo fyrir að vera sjúklega töff að keppa í skíðagöngu. Báðar svona upplífgandi og hressandi fréttir, á hvorn sinn háttinn þó.

föstudagur, mars 23, 2007

Vondi heimur

Sumt fólk, sem er illgjarnt, hæðist að fólki sem er yndislegt, eins og mér. Hvenær mun illska þessa heims fara hopandi?

miðvikudagur, mars 21, 2007

Tuttugastiogfyrsti mars

og litlu tvíbbar eiga afmæli í dag. Ninni reyndar líka ef ég man rétt. Ég man enn mjög vel eftir því þegar lille tvíbbs fæddust, báðir í langlegu, tvíburi A í höfuðstöðu en tvíburi B í sitjandi stöðu (veit þó ekki hvort um var að ræða Frank eða complete Breech), en ég man ekki neitt eftir því þegar Ninni fæddist. Já sumt man maður og annað ekki. Gaman að fara svolítið yfir það. Svona eins og að segja öðru fólki draumana sína. Það er eitthvað mesta anticlimax there is, antisocial jafnvel.
"Sko ég var heima hjá mér, en samt var þetta ekki heima hjá mér, og allt í einu kom amma sem er sko dáin en hún leit út eins og Hólmfríður frænka í draumnum........" Þetta er svona með taktlausari partýmúvum.

En þá að öðru. Stutt í próf í kvenna. Vá hvað kvennakúrsinn er án efa búið að vera það alskemmtilegasta sem ég hef gert. Brilliant. Og jafnframt eina ástæðan fyrir því að ég hef þolgæði fyrir óléttusögum vinkvenna minna, en hálfur Rokkklúbburinn er vanfær eða nýbúinn að eiga, hálf órokkað eitthvað en meira að segja Courtney Love og Ellý í Q4U urðu óléttar svo þetta gerist.

En áfram að prófinu. Við erum semsagt mætt í Múlann sem ýmist heitir Partý Múli eða Fúli Múli eftir því hvernig liggur á okkur að loknu verknámi og fyrirlestrum rúmlega fjögur á daginn. Í dag var Partý Múli og þá er nú glatt á hjalla. Allavega er glatt á mínum bás. Ég ætla að fresta Kýpurferðinni minni um 3 daga til að klára prófið en þá verð ég líka 100% skemmtilegri og afslappaðri á Kýpur og það mun gleðja alla viðstadda. Svo enn og aftur er ég óeigingjörn og alltaf að hjálpa öðrum. Er það nema von að að ég blómstri þessa dagana eins og blóm sem vex upp til þess eins að vera étið af öðrum, litríkt og ilmandi.

sunnudagur, mars 18, 2007

Dómstóll götunnar

Jæja þá eru dómstólar búnir að kveða upp þann úrskurð að forstjórar olíufyrirtækjanna, þeir hinir sömu og plottuðu verðsamráð og skiptu með sér markaðinum, bæru ekki ábyrgð á því. Það eru fyrirtækin HF sem bera ábyrgðina. Þá veit ég ekki hvort átt er við húsnæðin, innanstokksmuni eða hlutabréf, en fyrirtækin voru það.
Ég er ekki lögfróð, langt því frá, en enn og aftur er siðferðiskennd minni misboðið. Því höfða ég nú til dómstóls götunnar. Nú hunsum við þessi glæpsamlegu fyrirtæki og verslum við Atlantsolíu. Sjálf notast ég við þennan prýðilega dælulykil og það er hrein snilld hvað það er þægilegt.
Annars er ég farin að halda að maður geti haft ágætlega upp úr því að vera bara sem minnst heiðarlegur. Og því óheiðarlegri, því meira fyrirgefst manni. Hrein snilld.

Eftir aldamótakynslóðin

Ester skilur ekki að suma geisladiska er ekki hægt að horfa á. Það var meðfylgjandi hljóðdiskur með Bangsímon bók sem Ester á og hún er búin að eyða 40 mín. í að öskra á mig fyrir að vilja ekki spila hann í sjónvarpinu. Hún lætur sig engu varða útskýringar mínar um það að þessi diskur sé til að hlusta á. Heimur versnandi fer.

miðvikudagur, mars 14, 2007

Ester á ammili í da, alla daga.

Ester er svo fyndin þegar hún labbar um og segir í sannfærandi, glaðlegum tón: É á ammili í da. Og af því að ég er úber þroskuð þá finnst mér mjög gaman að svara henni með því að segja henni að hún eigi ekki afmæli í dag. Þá reynir hún að svara mér nokkrum sinnum enn glaðlegar og enn meira sannfærandi: É á ammili í da. En svo fer að þykkna í henni og hún fer að þruma: É Á AMMILI Í DA! Og það sem gellan getur orðið þungbrýnd, ég veit ekkert hvaðan hún hefur það.
Nema hvað að við fórum í sund um daginn og þegar við vorum að klæða okkur þá byrjar Ester að söngla þennan söng sinn um afmæli sitt og ég svara með uppteknum hætti. Jæja svo þegar við erum komnar í fötinn og ég vil fara að koma mér út úr klefanum þá er Ester að skríða inn í fataskáp og er að reyna að loka honum á eftir sér. Ég kalla í hana að koma núna en hún svarar: Nei! é á ammili í da! Þá var ég orðin óþolinmóð og segi frekar ákveðið: Ester þú átt EKKI afmæli í dag og KOMDU NÚ! Þá heyri ég tvær táningsstelpur hvískra sjúklega hneykslaðar: Oj ógeðslega leiðinleg mamma, segir bara við barnið sitt að hún eigi ekki afmæli. Ég sýndi hins vegar mikinn þroska þegar ég lét það vera að láta viðstadda vita að barnið á afmæli 24. október.

Lýður Oddsson hver?

Það var humar í kvöldmatinn hjá læknahjónunum í gærkvöldi. Þetta er búið að vera svona frá því Doddi útskrifaðist, humar á þriðjudagskvöldum. Nei ég er að gera grín. Það var reyndar smá klúður sem orsakaði það að humarinn frá Flosa vaktmanni var borðaður á þriðjudegi. Eiginlega ber læknirinn sem fékk sverð í ennið á árshátið um síðustu helgi ábyrgð á því að það var humar í matinn í gærkvöldi. En á góðan hátt samt með dúndur veitingum á sunnudaginn. Já það er nú svo. Jón Gunnar kom og borðaði með okkur humarinn sem var guðdómlegur. Doddi og Jón eru rauðhærðir og virðast fíla það, allavega segjast þeir gera það, og þeir áttu ekki orð yfir kastaníubrúnum lokkum Eika Hauks í þessu myndbandi hans. Ég sver það að þeir voru klökkir þegar þeir ræddu þetta og gott ef ekki féllu nokkur tár. Ekki fer ég að grenja í hvert sinn sem kona með íslenska sauðalitinn á hausnum litar á sér hárið. Þá myndi ég ekki komast yfir neitt annað í lífinu en að grenja.

sunnudagur, mars 11, 2007

Delivering Babies!!!!!

Þá er önnur sólarhringsvaktin mín búin og ég hélt áfram að raka inn fæðingum. Ég óttast það að bekkjarfélagar mínir berji mig í frímó á mánudaginn þannig að ég ætla ekkert að vera að segja frá því að ég hafi fengið vatnsfæðingu á vaktinni;) Hehehehe. Jæja það eru þá allar líkur á því að ég bjargi mér ef ég þarf að taka á móti úti í feltinu eða periferinu eftir atvikum. Já við stúdentarnir vitum að það getur verið grínlaust að vera úti í periferinu.
Nú veit pöpullinn ekkert hvað ég er að fjasa, og ég veit ég er að fjasa, ég er svefnlaus, en það er alveg sjúklega fyndin menningin á spítalanum að kalla læknanema stúdenta og sumt fólk getur ekki sagt úti á landi, heldur verður að tala um periferið. Þetta eru sér í lagi eldri sérfræðingar sem tala um okkur sem stúdenta eða ávarpa okkur sem slíka. "Segðu stúdentunum hvernig á gera þetta", "Láttu stúdentinn taka þennan journal", eða "Láttu stúdentinn fylgjast með." Ógleymanleg er sagan af ónefndum mági mínum. Hann var búinn að vera að aðstoða í aðgerðum allan morguninn, ætlaði að gerast svo djarfur að fá sér hádegismat og var að labba út skurðstofuganginn þegar einn eldri sérfræðingur öskrar á eftir honum: "STÚÚÚÚDENT!!!! ÞVOÐU ÞÉR!!!!" En að þvo sér vísar ekki til óhreinlætis viðkomandi heldur að hann eigi að skrúbba sig og standa sterill í aðgerðinni með skurðlækninum. Allavega. Sjúklega fyndið og getur einhverra hluta vegna bara komið fyrir suma;)

föstudagur, mars 09, 2007

Oj Bloggheimur!

Bloggheimur hefur síðustu daga logað í illdeilum, persónulegum svívirðingum og yfirlýsingagleði byggða á fáfræði og fordómum. Minn daglegi bloggrúntur er farinn að minna mig á lágkúruna sem barnaland.is er. Mér finnst einhver hnignun í gangi og mér finnst hún hafa byrjað með moggablogginu. Ég er ekki glöð með þetta!

sunnudagur, mars 04, 2007

40 km

að baki. Einungis 50 to go. Hehe þvílík geðveiki. Gaman að þessu, ég er jafn spennt á netinu eins og yfir Ísland - Danmörk leiknum.

Vasagangan

Jæja þá er kappinn, eiginmaður minn, lagður af stað í gönguna miklu ásamt Baldri og fullt af fleira liði. Eflaust finnst einhverjum þetta ótöff, en ég man þá tíð er ég átti helmassaðan og helköttaðan mann. Því má Þóroddur fara í allar þær skíðagöngur sem hann lystir, ekki mun ég standa í vegi fyrir því, burtséð frá öllum þröngum og skærlituðum klæðnaði.
Hér má fylgjast með þeim online, Dodda og Baldri, fyrir þá sem hafa brennandi áhuga á gengi þeirra.
Líf og fjör.

laugardagur, mars 03, 2007

Antisocial

Hvar eru Vinir einkabílsins í umræðunni um svifrykið?

Why?

Þegar ég er búin að ákveða að skrifa minn síðasta klámpistil er mér gjörsamlega gert það ókleift. Stundum er það svo að ekki verður orða bundist. Í Blaðinu í dag er grein eftir Atla Fannar Bjarkarson sem heitir: Hamingjusama klámstjarnan. Þar er rakinn ferill Asiu Carrera, móður, gáfnaljóss og klámmyndaleikkonu. Mikil áhersla er lögð á gáfur Asiu, með greindarvísitölu upp á 156 og aðild að MENSA. Fyrir daga hæstarréttardóms í meiðyrðamálum, hefði ég e.t.v skrifað að Atli Fannar hefði með grein sinni sannað, að sjálfur ætti hann ekkert erindi í MENSA, en í dag myndi ég ekki fullyrða neitt slíkt. Þegar greinin er lesin kemur fram að Asia þessi var lokuð inni í herbergi í hvert sinn sem hún fékk B í einkunn, og lamin ef hún fékk lægri einkunnir, sem strax gefur manni mynd af því heilbrigða umhverfi sem hún hefur alist upp við. 17 ára strauk hún að heiman og lifði á Dorritos flögum þar til henni var komið fyrir á fósturheimili þaðan sem hún strauk. Örugglega vegna hamingju, ástar og góðs atlætis var henni ekki lengur vært þar. Þá fór hún að þjóna ber að ofan og strippa til að hafa í sig og á, en þegar hún komst að því að klámmyndaleikkonur þénuðu meira, leiddist hún út í klámmyndaleik. Í dag segist hún ekki vera að sætta sig við neitt minna þrátt fyrir gáfur sínar??? Gleymum því ekki að hún hefur ekki lokið neinu námi enda ekki aðstæður til þess fyrir 17 ára ungling á götunni að sjá fyrir sér í námi í Bandaríkjunum, þannig að það er skekkt mynd að einblína á einhverja greindarvísitölu. Hún er jafn ómenntuð fyrir því og eflaust með fjárhagslegar skuldbindingar sem gerðu það að verkum að hún ílengdist í vinnu frekar en að fara í nám eins og gerist með svo marga. Að loknum leik í yfir 270 klámmyndum hefur hún aldrei verið hamingjusamari???? Þarna eigum við að kaupa hamingjusömu klámmyndaleikkonuna, en gleymum því ekki hvaðan hún er að koma. Kannski ekki erfitt að vera hamingjusamari en þegar hún var lamin, lokuð inni, svöng og blönk á götunni. Allavega koma brengluð viðmið upp í hugann. Auk þess er ekki ótrúlegt að jafn vel gefin kona og hér er dregin upp mynd af, þurfi að réttlæta fyrir sjálfri sér í hvaða stöðu hún er, einfaldlega til að lifa af. Jú og svo er hún móðir og fram kemur að þegar hún hættir í kláminu þá ætlar hún að einbeita sér að móðurhlutverkinu. Það er ábyggilega æðislegt veganesti út í lífið að geta valið úr, yfir 270 klámmyndum, með mommy dearest á næstu leigu. Ég veit ekki með ykkar komplexa, en mínir komplexar létu á sér kræla þegar ég var í gaggó og mamma var ólétt að tvíburum. Jesús og allir í skólanum hlutu að vita hvernig það gat gerst!!! En ég veit það ekki, kannski fær maður bara respect í States ef allir hafa aðgang að leggöngum móður manns í frímó.
Með sömu "staðreyndum" (ég nennti ekki að hafa fyrir því að afla mér neinna frekari heimilda) fáum við Atli mjög mismunandi mynd af aðstæðum þessarar konu. Hann ætlar sér að draga upp einhverja jákvæða glansmynd af hamingjusömu klámmyndastjörnunni og við eigum að trúa því að þetta sé það sem hún valdi sér, þess vegna er þessi mikla áhersla á gáfurnar. Þvílíkur brandari. Ég sannfærist enn frekar um það að alltaf liggur einhver eymd að baki þegar konur velja þennan starfsvettvang. Er ekki líklegt að barn sem hefði búið við öryggi og gott atlæti hefði gengið menntaveginn með þessa námshæfileika? Er menntahroki að leyfa sér að spyrja að því? Hvort er það ég eða Atli sem er með brengluð viðmið?

föstudagur, mars 02, 2007

Eru þetta

elstu rituðu heimildir á Íslandi um færeyska kyntröllið Jógvan?
Maður spyr sig. Alltaf frumkvöðull!

Veikindaorlof

Ég er heima með Ester sem er með obs. RS-vírus. Ljótur, geltandi hósti, hor og smá hiti. Við erum að horfa á Bangsímon og það er krúttlegt. Ólundar Eyrnaslapi er uppáhaldið mitt. Önugur, þunglyndur, í stöðugri sjálfsvorkun. Það er ekki annað hægt en að tengja.

Sitji Guðs Englar

Bókaserían um krakkana í Hafnarfirðinum voru uppáhalds bækurnar mínar þegar ég var krakki. Ég las þær allar þrjár, aftur og aftur og aftur, þar til þær voru lausar úr kilinum. Því kættist ég ógurlega þegar ég las að það ætti að setja þetta upp í Þjóðleikhúsinu og byrjaði að undirbúa mig með því að lesa bækurnar fyrir Ingvar. Við grenjuðum úr hlátri kvöld eftir kvöld yfir blótsyrðum afans og hlökkuðum mikið til. Ég fór hins vegar ég fílu þegar ég sá að Brynhildur Einhversdóttir ætti að leika Heiðu en það yrðu börn í öllum öðrum hlutverkum. Þvílíkt klúður. Ég hef ekki enn nennt að fara, kallið mig langrækna, en mér finnst þetta bara svo hallærislegt að ég næ ekki upp í það, það er svo tilgerðarlegt að horfa á fullorðið fólk leika börn og fáir sem geta það. Svo les ég í dag að sýningum sé að ljúka og ég ætla að láta þetta líða hjá mér. Fer bara eftir 10 ár og vonandi verða þá börn í hlutverkum barna.

fimmtudagur, mars 01, 2007

Er bloggið dautt?

Ég finn fyrir vaxandi leiða í garð þessa bloggs míns. Etv. spilar þar inn í að ég er ekki í prófum, djöfulinn veit ég? Mér leiðist moggabloggið þrátt fyrir að vera ekki herstöðvaandstæðingur, mér finnst asnalegt þetta fréttalink til að komast á forsíðuna á mbl. Mér leiðist stjórnmálamanna blogg og núorðið er mér farið að leiðast fjölmiðlamannablogg.
Bloggið mitt er að vera fjögurra ára og þetta er búið að vera merkilegt úthald. Þrátt fyrir einstaka svívirðingar á síðu minni hef ég skrifað hverja einustu færslu allsgáð. Ég býð ekki í það ef konan hefði ætlað að segja fólki sannleikann á veraldrarvefnun eins og hún átti til hér í denn. Ég tala nú ekki um eftir að Bubbi er búinn að vinna meiðyrðamálið sitt, þá væri okkur hinum sannleiksmælandi sálum eigi lengur vært. En nú er ég andlaus og mér leiðist þetta.