luxatio hugans

awakening

laugardagur, október 27, 2007

Misskilningur.... hvernig verður hann til?

Ég fór með vinkonu minni á fimmtudagskvöldið að hitta konu sem ég var búin að ákveða fyrirfram að væri með paranoid schizophreniu. Það var svosem ekki úr lausu lofti gripið, ég misskildi bara aðeins hvern við værum að fara að hitta. Þessi vinkona mín á mömmu sem er geðklofi og svo mömmu sem hún ólst upp hjá. Okei pínu flókið. En hún biður mig að koma með sér að hitta mömmu sína á hóteli og ég ákvað að það væri sú með geðklofann án þess að spyrja frekar því ég veit að uppeldismamman býr úti á landi. Svo hitti ég þessa konu og þá vill þannig til að síminn hringir hjá vinkonu minni og við erum því bara tvær einar ég og mamman. Ég er vel upp alin og brydda upp á kurteisishjali við mömmuna. Þar sem ég var búin að ákveða að konan sem ég var að tala við væri með geðklofa og ofsóknarhugmyndir þá tókst mér að túlka allt sem hún sagði og gerði á þann veg. Hún var með gsm síma sem var að taka myndir í gríð og erg og hún spurði hvort ég kynni að laga svona síma sem væri alltaf að taka myndir óumbeðið. Ég brosti kurteisislega með empathiubrosinu mínu og sagðist ekki kunna það. En hugsaði með mér að þarna væri nýstárleg ranghugmynd á ferð. GSM sími með eigin vilja. Ég var reyndar pínu hissa á því hvað hún var vel til fara og leit í raun og veru út fyrir að vera heilbrigð. Ég spurði hana líka hvað hún væri búin að búa lengi á þessu hóteli, því síðast þegar ég vissi var hún á sambýli. Hún sagðist ekki búa á þessu hóteli heldur vera í viðskiptaferð. Ég brosti líka fallega empathiubrosinu mínu og kinkaði með uppörvandi hætti kolli yfir þeirri ranghugmynd að konan væri í fjármálabransanum. Svo í miðjum klíðum þá runnu á mig tvær grímur, og ég þurfti að fara til baka í tímann í huganum og rifja upp fyrri samtöl mín og vinkonunnar og þá allt í einu áttaði ég mig á því að þetta var mamman sem var ekki geðklofi.
Vúff þetta slapp fyrir horn. Ég kom aldrei upp um mig...... ekki þannig lagað en sjálfsagt hefur mömmunni þótt ég einkennileg, ég veit það ekki.
Þá var aumingjans konan bara í viðskiptaferð í borginni og með bilaðan gsm síma sem tók myndir látlaust;) Óþarfi að stimpla hana með geðsjúkdóm fyrir því!

Af eyrnamergsáti

Ég vorkenni svo þessum aumingjans ástralska stjórnmálamanni sem var á hraðleið í forsætisráðherrastólinn þar til hann var nappaður við það að éta eyrnamerginn úr eyrunum á sér. Aumingjans ræfilstuskan.

föstudagur, október 26, 2007

Dagneysla á vímuefnum

er ekki smart og getur aldrei talist eðlilegt fyrirbæri. Áfengi og þar með talið léttvín og bjór, eru vímuefni og að reyna að líkja þessu við hverja aðra matvöru er fáránlegt. Mér finnst þessi umræða um suðurevrópsku vínmenninguna til að reyna að fegra dagdrykkju hreint og beint hlægileg. Og ég tala af reynslu því ekki einn og ekki tvo heldur ótal einstaklinga hef ég heyrt segja þá sögu að þeir hafi einmitt talið sig vera svo mikla heimsborgara að vera að sulla í rauðvíni og bjór árið um kring. Þar til einn slæman veðurdag að þeir ákváðu að draga hausinn útúr rassagatinu á sér og horfðust í augu við það hvaða áhrif þessi fágaða víndrykkja var að hafa á fólkið í umhverfi þeirra. Og þetta er ekki fólk sem telst rónar í samfélaginu heldur einmitt þessir functional alkóhólistar sem fólk kýs að gleyma að sé til.
Margir virðast hafa áhyggjur af aumingja óvirku alkóhólistunum sem þyrftu þá að hafa áfengi fyrir augunum þegar þeir versla í matinn. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af óvirkum alkóhólistum ef þetta frumvarp nær í gegn. En mér gremst að það sé verið að auka aðgengið fyrir börn og unglinga. Og það þýðir ekki að neita að horfast í augu við að það mun gerast. Þess vegna skil ég þetta ekki!! Þeir sem eru svo fínir að þeir þurfa sitt rauðvín með matnum þeir geta auðveldlega orðið sér út um það. Hvað er vandamálið?! Ég sé það ekki. Ég sé hins vegar að hitt geti orðið vandamál.

Frjálshyggjan er að mörgu leiti smart. En það virðist samt vera svo að málflutningur frjálshyggjufólks verður oft svo barnalegur. Meiri hagsmunum fórnað fyrir minni. Af frekjugangi sem minnir á smákrakka í kjörbúðum.

miðvikudagur, október 24, 2007

Litla þriggja ára dýrið mitt

Afmælisbarnið nývöknuð að morgni afmælisdagsins

Búin að fá kórónu í leikskólanum


Stóri brósi fékk að koma með á leikskólann að sækja afmælisbarnið

Nett kökuveisla í dag, sem fáir mættu í utan fjölskyldunnar, en Ólöf og Beisi létu sig ekki vanta og er það vel. Það verður svo afmælisveisla á sunnudaginn. Kannski koma fleiri myndir þá.

mánudagur, október 22, 2007

Alveg brilliant

kvennaferð að baki eftir helgina. ALGJÖR SNILLD! Frábær hópur af alveg meiriháttar konum að gera meiriháttar góða hluti. Enda varð ég svo meyr á sunnudeginum að ég fór næstum að grenja af þakklæti fyrir að fá að tilheyra þessum hóp. En að grenja er bara fyrir aumingja og því kýs ég að gera það helst ekki.... allavega alls ekki innan um fólk;)
En frú K. er krútt og engum öðrum myndi ég fyrirgefa að reyna að koma mér til að grenja fyrir hádegi á sunnudegi.
Já í dag er ég hamingjusöm, glöð og frjáls, reyndar uppgefin eftir helgina en samt hgf.

sunnudagur, október 14, 2007

Lystin að lifa

Rúv sýndi í kvöld þessa heimildamynd um unga stúlku með átröskun. Rosalega góð og skynsöm umfjöllun. Mjög beitt og ekki laus við ádeilu. Ég er eftir mig að hafa horft á þessa stúlku segja sögu sína á svo umbúðalausan hátt.

laugardagur, október 13, 2007

Ertu eitthvað geðveikur????!!!!

Ég gerði Dodda mínum æðislegan óleik áðan. Hann var að skutla Olla frænda niður í bæ þegar ég hringdi í hann og bað hann að kaupa fyrir mig dömubindi, sem ég veit að allir karlmenn elska að versla og Svala vinkona mín vill helst hýða mig fyrir að nota. Anyways ég fer ekki út í umræðuna um gúmmídrullusokk í leggöngin núna. Ég var svo hér heima í mestu makindum þegar Snorri Laxdal hringir og spyr mig hvað í fjandanum við séum að gera og hvar síminn hans Dodda sé. Ég segi að Doddi hafi farið að skutla Olla í bæinn og síminn sé örugglega með honum. Þá segir Snorri mér að hann sé búinn að fá átta mjög vafasöm sms frá Dodda. Hvort ég haldi nokkuð að Olli sé orðinn fullur og hafi komist í símann hans? Olli var nýfarinn út, bláedrú, svo mér þótti það meira en lítið ósennilegt en vildi fá að vita hvað stóð í þessum vafasömu sms-um. Þá segir Snorri mér að þessi átta skilaboð hafi hljóðað svo: Always Ultra Plus.
Þarna tryllist ég úr hlátri og er ekki búin að jafna mig ennþá.

föstudagur, október 12, 2007

Heimsmet

Ég legg til að einhver hafi samband við Heimsmetabók Guinnes til að fá það á hreint hvort nokkurn tíma hafi einhver verið jafn valdamikill með jafn fá atkvæði á bak við sig eins og Björn Ingi Hrafnsson er nú.

Doktor fyrir borgarstjóra

það er verst að ég sé ekki í fljótu bragði neinn augljósan ávinning fyrir mig af því.

miðvikudagur, október 10, 2007

Auglýsing ársins 2007

hlýtur að vera Pantene sjampóauglýsingin en hún hljóðar svo:

"Þegar hárið á þér er svona slétt, geta endalok dagsins virst eins og upphafið!"

Wtf?

þriðjudagur, október 09, 2007

Lélegir bloggarar

Stundum hef ég ekki alveg skilið hvernig bloggheimur nennir að vera svona vondur við Stefán Fr. Stefánsson. Jú vissulega er hann hundleiðinlegur bloggari en hann gerir svosem engum neitt. Aldrei með illindi eða leiðindi önnur en leiðindi almenns eðlis. En þessi færsla hans hér er náttúrulega alveg meiriháttar. Hvernig í ósköpunum er hægt að skrifa svona mikið um ekki neitt??

laugardagur, október 06, 2007

Hurðarblogg

Það er hreint prýðilegt úrval af forljótum innihurðum í fyrirtækjum sem sérhæfa sig í þessháttar þjónustu hér í borg. Ég er ekki að grínast með það að ég er ekki að finna innihurðir sem hæfa frúnni. Ingvar var farinn að spyrja mig hvort allt hefði verið forljótt þarna líka þegar ég kom út í bíl á hverju fyrirtækinu á fætur öðru. Viljið þið í guðs almáttugs bænum hafa samband við mig ef þið lumið á fyrirtæki sem selur fallegar innihurðir. Grenj.

föstudagur, október 05, 2007

Matarblogg

Ég og Mæja elduðum saman í kvöld handa okkur og litlu krúttunum okkar. Mér hlýnar alltaf svo um hjartaræturnar þegar ég er búin að eyða kvöldstund með Mæjunni minni.

Öhhhhhhhhhhhhhhhh DJÓK!!
Fyrir það fyrsta þá fæ ég æluna upp í kok þegar fólk talar um vini sína með greini. Djöfull er það ógeðslega væmið. Í öðru lagi þá eldaði ég alein og fékk enga hjálp frá Önnu Maríu sem einsetti sér það þess í stað að láta mig brenna við. Fyrir það þriðja þá átti hún erfitt með leyna vonbrigðunum sem skinu úr andlitinu á henni þegar hún áttaði sig á því að Doddi kæmi ekki því hann væri á vakt og í fjórða lagi gat hún ekki talað um annað en raflostsmeðferðir sem hún er að framkvæma á þunglyndu fólki. Samt ágætlega skemmtilegt kvöld.

þriðjudagur, október 02, 2007

Af fingraáverkum Ingvars

Ingvar fékk högg á þumalinn í leikfimi í gær. Hann fann frekar mikið til í fingrinum í gær en meira í dag og er marinn og bólginn. Svo var hann eitthvað að væla í okkur hérna í kvöld og við vorum að skeggræða hvort þyrfti e.t.v að mynda þetta. Þá dró Ingvar í land og sagðist alveg geta hreyft fingurinn. Ég bað hann vinsamlegast að ákveða hvað hann hyggðist hafa mikinn styrkleika á kvörtuninni. Hvort hann gæti harkað af sér eða hvort hann þyrfti mynd? Þá brást Ingvar hinn versti við og sagðist bara vilja fá almennilega lækna til að meta þetta ef við gætum það ekki. Mar þarf kannski bara að kalla á bæklunarkonsult til að halda sjúklingnum góðum. Ætli Hvönnin sé laus?

Áætlanir Ingvars

Um leið og ég verð átján ára ætla ég að sækja um bankastjórastöðuna í KB banka....

mánudagur, október 01, 2007

Skv. nýjustu fréttum

heldur Jón Gunnar áfram að braggast, hægt og hægt. Ég er búin að vera lesa gamlar bloggfærslur eftir hann í kvöld og grenja úr hlátri, kannski er styttra í tárin en venjulega. Maðurinn er ekkert eðlilega fyndinn. Ég neita bara að sætta mig við neitt annað en að Jón Gunnar verði áfram hrókur alls fagnaðar í öllum fjölskylduboðum. Það er bara þannig. Með hárbeittan, kaldhæðinn húmor. Ég gleymi því ekki á jóladag þegar Baldur varð þrítugur þegar Jón Gunnar kvað sér allt í einu hljóðs í mannfullri stofunni og sagði hátt og snjallt: "Næst ætlar Fanney Auður Baldursdóttir að segja okkur frá því hvernig henni tókst að halda meðgöngunni leyndri í 7 mánuði!" Umrædd Fanney hló hæst sjálf. Og helvítis sagan af klámblöðunum sem þeir Doddi lásu í hlöðunni sem var btw. sögð í BRÚÐKAUPSVEISLUNNI MINNI! Ef ég hefði haft klámblað þá hefði ég lamið hann með því. En ég á það bara eftir. Því hann mun verða nógu hress og sprækur aftur til þess. Það kemur bara ekkert annað til greina.

Heyrðist áðan

B: Heyrðu A1, getur þú leitt fundinn á miðvikudaginn?
A2: Ha? Á hvaða fundum eruð þið á miðvikudögum?!
B: Fyrir hasshausa.
A2: Af hverju þurfa hasshausar spes fundi allt í einu??
K: Af því að hitt er of hratt fyrir þá!

Bwahahahhahaahahahaha.