luxatio hugans

awakening

föstudagur, febrúar 27, 2009

Af bangsaplágu

Ég held ég hafi einhvern tímann verið búin að blogga um bangsahelvítið Kolbein sem Ingvar tók með sér heim x 2 helgar á ári frá því hann var í 6 ára bekk. Með þessum óláns bangsa fylgdi dagbók þar sem fjölskyldan skyldi fylla út hvað á daga Kolbeins hafði drifið. Eftir því sem leið á veturinn urðu ævintýri Kolbeins meiri og meiri þar sem hver fjölskylda þurfti að slá út þá síðustu í activity. Kolbeinn brá sér á Esjuna og á skíði og í Bláa Lónið og í leikhús og í bíó og sund og afmæli, allt sömu helgina. Okkur fannst þetta svo plebbalegt að það var að ganga af okkur dauðum að þurfa að taka þátt í þessu. Dodda datt í hug að gera suicide note frá Kolbeini í bókina síðast þegar við fengum hann.
-Of mikið álag, get ekki meir, ætla að drepa mig, kær kveðja, Kolbeinn.

Í dag fengum við svo glaðning heim með Ester af leikskólanum, nefnilega bangsann Maríu og dagbókina hennar. María er nú þegar búin að fara í Krónuna svo það stefnir í æsilega helgi hjá henni. Doddi nefndi það við leikskólakennarann að nú þyrfti að setja allt á fullt til að þetta yrði sem æsilegast og þá sagði gellann að hún hefði stundum verið að lesa upp sögurnar úr bókinni fyrir krakkana eftir helgarnar og þá hefði barnið sem fór með bangsann heim leiðrétt hana. Þá hafði alls ekki allt verið gert sem hafði verið skrifað!! Hvað er eiginlega að! Er fólk að tryllast úr heimsku og meting og fyrir hvern er verið að sýnast?!
Ég spái því að María fái flensu um helgina og verði mest í rúminu.

miðvikudagur, febrúar 25, 2009

Af áhyggjum

Rúv greindi frá því í kvöldfréttum að óttast sé að 800 fm ókláraður sumarbústaður sem Sigurður Einarsson kenndur við Kaupþing hóf að reisa sér í fyrrahaust, lægi nú undir skemmdum. Af öllum þeim mannlegu hörmungum sem greint hefur verið frá í kreppunni er fátt sem hefur valdið mér jafn miklum óhug. Í hvaða sumarbústað eiga krakkarnir hans Sigga nú að spila innanhússknattspyrnu?

Af meintu tískuslysi

Hvernig er hægt að kalla þetta outfit Heidi Klum tískuslys??!! Mér finnst hún friggin fabulous í þessu dressi! Hvar fæ ég svona? Langar að kaupa.

mánudagur, febrúar 23, 2009

Af Lottu

Ég er búin að vera að lesa Lotta flytur að heiman fyrir Ester síðustu kvöld. Ég er ekkert sérstaklega seinlesin, bókin er bara löng. Nema hvað að þetta er alveg hrikalega fyndin bók. Miklu fyndnari en myndirnar því bókin fangar mjög vel sauðþráan þankagang Lottu sem hlýtur að vera óþekkasti krakki í heimi. Ég hef því ítrekað fengið óstöðvandi hlátursköst við lesturinn.
Í kvöld háttaði ég svo Ester í mitt rúm því Doddi er á næturvakt og þá er notalegt að hafa lítinn svefnfélaga. Þar sem ég er svo að byrja á næsta kafla í Lottu þá lét Ester mig heyra það að ef ég ætlaði að fara að hlæja mikið þá færi hún yfir í sitt rúm!! What?! Hvar er húmorinn í þessum krakka?

Smá brot:

-Lotta! Ætlaru ekki að koma niður og drekka kakóið þitt, kallaði mamma niðri í stiganum.
-Já þú heldur það kannski, tautaði Lotta og hreyfði sig ekki.
-Svaraðu mér Lotta, kallaði mamma. Ætlarðu að drekka kakóið þitt eða ekki?
Nú hýrnaði yfir Lottu. Mamma mátti standa þarna og spyrja eins oft og hún vildi hvort Lotta ætlaði að drekka kakóið sitt. Lotta ætlaði ekki að svara og henni fannst eitthvað kitlandi við það að svara mömmu ekki þegar hún kallaði.
En hún var orðin svöng og hana langaði talsvert í kakóið og þegar hún hafði beðið mátulega lengi tók hún Bangsa undir handlegginn og lagði af stað niður stigann. Hún gekk afskaplega hægt og stansaði smástund í hverju þrepi. Mamma skyldi sko ekki vera of viss. Kannski drykki hún kakóið. Og kannski drykki hún það ekki.
-Ég sé til hvað ég geri, sagði Lotta við Bangsa.

Þessi krakki myndi náttúrlega gera mann geðveikan. En þvílíkur snillingur sem Astrid Lindgren hefur verið að spotta atferli.

sunnudagur, febrúar 22, 2009

Af menningunni

Madonna verður með tónleika í Gautaborg 8. og 9. ágúst. Kannski maður skelli sér og dragi Þórhildi og Tinnu með sér. Þetta er drottningin sko!

Viðbót: Ég hef heyrt að Bubbi túri Lund amk annað hvert ár! (Sorry ég bara gat ekki stillt mig)

Viðbót 2: Doddi er búinn að finna hús handa okkur með vínkjallara. Ég get ekki án vínkjallara verið svo þetta virðist ætla að verða húsið.

föstudagur, febrúar 20, 2009

My eyes, my eyes.

Í dag sáum við Árdís konu í svörtum nælonsokkabuxum, svörtum þykkum hnésokkum og háum hælum. Að ofan var hún í svartri peysu og vel til höfð var stúlkan.
Hún var ekki í neinu öðru að neðan hins vegar. Mér segir svo hugur að hún hafi gleymt að fara í pilsið eða extra stuttu stuttbuxurnar sem eru svo móðins núna. Ég hélt ég kæmist ekki lifandi frá þessu.

Af Svíþjóðarupphitun

Ég er allt í einu að ná þessu með Dodda og Svíþjóð. Einhverra hluta vegna er fjölvarpið óruglað þessa dagana þannig að hann kemst á SVT1 og SVT2. Í gærkvöldi var hann svo að missa sig yfir sænskum íþróttafréttum. Sá fréttatími var aðeins öðruvisi en við eigum að venjast hér á fróni því fréttir af gönguskíðum og skíðaskotfimi tröllriðu öllu í þeim annál, eitthvað smá um íshokkí, ekki minnst á knattspyrnu. Svo gerðist það sem er tilefni þessarar færslu. Í nokkurs konar íþrótta"fréttaauka" var talað við 5 gönguskíðadúdda og ég sver það, ég vissi ekki hvað var að gerast!!! Þeir komu gangandi 5 saman upp skíðabrekku, birtust hægt, í slow motion, og undir hljómaði Eye of the Tiger. Samt voru þeir í Spandex og með Craft húfurnar, en alger stödds!! Right;)
Doddi getur sem sagt ekki beðið eftir að komast til lands þar sem hann verður meira kyngoð en Eiður Smári. Eða þannig birtist þetta mér.

Af óforskammelsi

Ég þoli það ekki þegar Doddi kann ekki að skammast sín þegar ég er með umvandanir.

miðvikudagur, febrúar 18, 2009

Af jobbi

ómægod, ómægod, ómægod!
Ég virðist allt í einu vera búin að sækja um vinnu í Svíþjóð án þess að hafa reyndar áttað mig á því. Eða svona - mjög óformlega þó. En samt ..... Ég er alveg með gæsahúð á bakinu.

mánudagur, febrúar 16, 2009

Af lífsins áföllum

Fyrir hálfum mánuði brenndi ég næstum af mér hægri eyrnasnepilinn með sléttujárni. Það var viðbjóður og ég gat ekki sofið á hægri hliðinni í viku. Svo var gróandinn ósmart, eins og herpes zoster eða eitthvað.
Áðan upplifði ég svo þá lífsreynslu að taka af mér hálft handabakið með ostaskera. Helvítis osturinn var eitthvað stamur, skerinn stóð á sér og ég ákvað að taka á því og hendin sem studdi við ostinn fékk að finna fyrir skeranum. Viðbjóður.
Verð ég ekki að henda skeranum? Eða sættir maður sig við eina umferð í uppþvottavélinni og þá sé skerinn eins og hann hafi aldrei farið í gegnum mannshold? Ég ætla aðeins að pæla í þessu.

föstudagur, febrúar 13, 2009

Til þeirra er málið varðar

sem eru unglæknar sem hafa leikið í stuttmyndinni okkar og eru spenntir að sjá afraksturinn á morgun, og líka hinir sem hafa séð okkur á ferli og spenntir að sjá afraksturinn, og svo þeir sem hafa séð okkur á ferli og létu okkur fara taugarnar á sér og nenna ekki að sjá þessa mynd; Það verður líklega ekki af þessu!
En það er ekki okkur að kenna heldur Microsoft sem framleiddi iMovie 2008 sem er lélegra en iMovie 2006 og enginn virðist hafa getað notað. Slæmt að komast að því hálfum sólarhring fyrir unglæknadaginn, og engir sem svara símanum sem eiga eldra iMovie o.s.frv en svona getur þetta verið. Nú getur bara kraftaverk bjargað okkur!
Ég er ekkert grenjandi samt sko, en ég gæti alveg grenjandi og mætti það!

Af myndbandagerð

Ég og Árdís og Gunni Thor erum búin að vera að gera myndband fyrir unglæknadaginn á laugardaginn. Við erum búin að vera eins og hálfvitar og öllum til ama á LSH síðustu daga með myndavélina á lofti. Okkur finnst þetta yfirnáttúrulega fyndið. Vonandi að falli í sama jarðveg hjá öðrum. Kemur á óvart samt hvað flestir er tilbúnir að flippa.

Setningu kvöldsins átti Gunni: "Ohh Allý, þú ert svo týpískur læknir - vangefin!!

miðvikudagur, febrúar 11, 2009

Af gjörsamlega screwed kerfi!!!

Djöfull varð mér flökurt að lesa um viðbjóðsfríkið sem misnotaði dóttur sína frá því hún var ungabarn. Viðbjóðslýsingar úr skýrslu Barnahúss. Mér finnst hann svo viðbjóðslegur að ég fæ það á tilfinninguna að ég gæti actually gert honum mein! En fyrst varð ég sótill við að lesa að barnaverndaryfirvöld reyndu að fá foreldrana svipta forræði í febrúar 2007 EN VAR SYNJAÐ!! Hvernig geta þessar aumu dómaradruslur lifað með sjálfum sér spyr ég nú bara!!

Og ég veit .... fjandi auðvelt að dæma, en andskotinn hafi það! Er til of mikils mælst að láta saklaus börn njóta vafans?! Það er til fullt, fullt, fullt af íslenskum heimilum sem bíða eftir þessum krökkum með útbreiddan arminn. En nei, það þarf alltaf að láta skemma þau varanlega áður en þeim er rétt hjálparhönd. Það er helvíti gott eða þannig!

Bið til guðs að þetta barn fái viðeigandi hjálp, ást og umhyggju og hægt verði að takmarka skaðann.

föstudagur, febrúar 06, 2009

Af hnetuofnæmi

Það er megrandi að vera með bráðaofnæmi fyrir hnetum, án gamans. Það eru ótrúlega margir vöruflokkar sem ég er farin að sniðganga algjörlega vegna möguleikans á "trace of nuts". Margir eru þessir flokkar mjög óhollir. Þannig að............
Það er líka rúmt ár síðan HÁS lagði blátt bann við lakkrísáti hvers konar þannig að það er að verða fátt um fína drætti.
Ég verð samt að segja að mig dreymir stundum að ég sé að borða þrist. Þá vakna ég með tárvotan kodda af söknuði.

Kv. Flónelstelpan

Af fréttaflutning

Mogginn: "Kona fannst látin í kofa!"

Vísir: "Konan sem fannst látin var nakin!"

Hvaða tilgangi þjónar þessi upplýsingagjöf til almennings? Er ekki hægt að sýna aðstandendum neina tillitsemi?

mánudagur, febrúar 02, 2009

Ekki kúl

Ég fattaði í kvöld eftir fundinn að ég ofnota líkamslátbragðið: Two thumbs up! þar sem ég geri nákvæmlega það; kreppi lófana með báða þumlana upp í loftið. Þetta þýðir bæði sjúklega gott, þar sem ég meina nákvæmlega það, og meiriháttar, þar sem ég meina akkúrat öfugt og er það þá helst andlitslátbragðið sem gefur muninn til kynna.
Djöfulli lúðalegt og það vill ég nú akkúrat meina að ég sé ekki, lúði altso!

sunnudagur, febrúar 01, 2009

Af atburðum dagsins.

Okei, nú haldiði sjálfsagt að ég sé geðklofi en ég er með tárin í augunum yfir fyrsta kvenforsætisráðherra lýðveldisins Íslands. Þetta er náttúrulega mjög sögulegt.
Og af því að ég fíla alltaf usla, þá finnst mér töff að tími konu sé kominn, sem sagði fyrir 15 árum að hennar tími myndi koma. Það er bara eitthvað við það þegar "minni máttar" hefur betur.
Ef Jóhanna væri eðal húmoristi þá hefði hún lokið máli sínu með því að segja: Minn tími er kominn!! En það gerði hún ekki og ég saknaði þess.