luxatio hugans

awakening

föstudagur, desember 12, 2003

Jólasveinarnir eru komnir til byggða. Þeirra varð áþreifanlega vart hér í Eskihlíð 16 b í nótt. Til að byrja með var Ingvar í allan gærdag eins og hann hefði étið óðs manns skít, af æsingi yfir komu jólasveinsins. Svo fór minn í náttgallann upp úr 19.00 og í rúmið 19.30. Það leist mér nú ekki sem best á. Sá fram á að drengurinn yrði árrisull. Hann sofnaði að lokum eftir að hafa gólað nokkrum sinnum nokkrar tæknilegar útfærslur á staðsetningu skósins. Anyways. Ég var að læra til 2 í nótt og þegar ég var að hafa mig í rúmið, rumskar Ingvar og kallar; "Hver er að ganga um?!". Og átti, held ég, von á að þar færi sjálfur Stekkjastaur. Hann rauk upp og kveikti ljósið og ætlaði að skoða í skóinn en ég gat stoppað hann og stýrt honum aftur, hálfsofandi í rúmið. Sjálf næ ég að sofna um 3 leitið og vakna aftur 5.30 með alsælan Ingvar, hoppandi í rúminu mínu af kæti yfir stækkunarglerinu sem Stekkjastaur hafði fært honum.

Drottin veri með mér. Það eru 12 svona nætur framundan. Vonandi verður þetta minna spennandi næst. Ég man ekki eftir því að þetta hafi verið svona erfitt áður. En ætli þetta sé ekki í síðasta skipti sem drengurinn fær í skóinn í sakleysi sínu. Næsta haust verður hann í skóla og þar hefur Jólasveinninn verið tekinn af lífi árum saman. Samt þarf ég að gefa barninu í skóinn í 6 ár í viðbót. Baldur fær nú enn í skóinn á aðfangadag.

Ég var á síðasta ári í leikskóla þegar mér var sagt að Jólasveinninn væri ekki til. Mömmur og pabbar gæfu í skóinn. Ég réðst á viðkomandi og beit hann í gegnum tárin.

Athyglisverðast af öllu er þó að í gærmorgun fékk einn drengurinn á Ingvars deild í skóinn. Vakti þetta að vonum mikla undrun. Hvernig gat nokkur jafn óskeikull og sjálfur Jólasveinninn ruglast svona? Ég veit það. Þessi jólasveinn kemur á sumarskemmtun leikskólans á pinnahælum og vinnur í 17 í Kringlunni. Ekki alveg í tengslum við raunveruleikann sú.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home