luxatio hugans

awakening

föstudagur, júlí 01, 2005

Einn er sá stimpill sem ég hef fengið á mig og ætlar að verða langlífur og hann er sá að ég sé svo góð með mig að ég geti ekki heilsað fólki og svo sé ég svo grimm á svipinn að fólk þori heldur ekki að heilsa mér að fyrra bragði. Sko, með það að vera grimm.......... ég get ekkert að því gert. Það er bara andlitsfallið sem mér hlotnaðist í genalottóinu. Ég efast um að neanderthalsmennirnir hafi alltaf verið svona hugsandi. Og hitt, það að ég heilsi aldrei.... ég er næstum því löglega blind. Ef að þið væruð búin að lenda í því jafn oft og ég að veifa glaðlega í fólk sem veifar ekki til baka heldur starir á mig eins og ég sé geðveik, þá mynduð þið líka hætta að veifa. Ég hljóp líka veifandi og kallandi í veg fyrir bíl sem að ég hélt að væri mamma en þá var það einhver maður á svipuðum bíl. Ekki einu sinni á eins bíl.
Nú er ég farin að spyrja Dodda áður en ég veifa: "Er þetta ekki Magga sem labbar þarna með dóttur sína?" og hann svarar iðulega: "Þú ert blind! Þetta er einhver maður með hund!" Eða þá að ég segi: "Nei en hvað þessi lömb eru skrítin á litinn" og hann segir: "Þetta eru beljur í kílómetra fjarlægð" Ég er nefnilega ekki heldur með neina dýptarskynjun og skynja þar af leiðandi fjarlægðir mjög illa.
Þannig að ef þú sérð mig og langar til að kasta á mig kveðju, þá er ég ekki reið að þykjast ekki taka eftir þér. Eða mjög líklega ekki. Þú gætir náttúrulega verið fífl. Ég veit ekkert hverjir eru að lesa. En þið hin. Sjáumst.