luxatio hugans

awakening

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Veikindablogg

Ester Helga er búin að vera fáránlega veik um helgina. Barn sem aldrei nokkurn tíma er kyrrt í eina sekúndu er búin að sitja í fanginu á okkur alla helgina á milli þess sem hún ælir og skítur út fyrir bleyjuna. Doddi fór í apótek áðan að kaupa Semper sem endurnýjar saltbirgðir líkamans eftir svona átök. Þar sem ég sá fram á kvöld í sófanum með barn í fanginu bað ég hann að koma við á videoleigu. Ég taldi upp einhverjar myndir sem mig langaði að sjá. Þar á meðal var Pride and prejudice.
Doddi hringir svo og segist ekki sjá neitt af þessu nema Bride and prejudice og er fremur pirraður að heyra. Doddi hefur nú aldrei verið neitt sérlega sleipur í enskum framburði svo ég lét linmælgina sem vind um eyru þjóta. "Viltu sjá hana??" spurði hann. "Þar sem Bollywood mætir Hollywood??" Ég játti því bara enda var Pride and prejudice alls staðar að fá frábæra dóma og hvað veit maður til hvaða líkinga þessir gagnrýnendur grípa? Kannski var þetta Bollywoodleg mynd? Mig varðaði lítið um það með ælandi barn á handleggnum og vildi losna úr símanum. En hann Doddi minn, sem hefur greinilega ekkert mikið verið að lesa Jane Austin kom bókstaflega heim með Bride and prejudice. Hehe það hvarflar ekki að mér að horfa á þessa mynd. Ég ætla að horfa á listhlaup á skautum. Ég skil ekkert í Dodda að hafa ekki reynt að hafa vit fyrir mér. Hann er brjálaður. Eftir afar niðurlægjandi aðstæður að leigja þessa mynd finnst honum lágmark að ég horfi á hana. Right.