luxatio hugans

awakening

miðvikudagur, maí 02, 2007

Já blessuð bernskan

Þar sem ég sit og les barnalæknisfræði, já og kafla um aðskotahluti í koki, þá rifjast upp fyrir mér minning frá Svíþjóð. Þá hafði drengur einn sem ég var með á leikskóla troðið perlum upp í nasirnar á sér. Að dreif starfsmann sem sá hvað hann var að gera og byrjaði að reyna að ná þeim út og tókst ekki. Því var farið með drengstaulann á sjúkrahús. Ég man eftir mikilli angist hjá mér í tengslum við þennan atburð. Sjúkrahús voru skelfilegur staður þangað sem fólk fór og dó. En þessi bjáni sneri aftur og varð hetja hvunndagsins. Í kjölfarið hófust mikil áhættuatriði hjá öðrum strákum á leikskólanum þar sem þeir léku sér að því að tylla einni perlu alveg fremst í nösina á sér og kippa henni svo út aftur. Ég og fleiri ábyrgar stelpur fylgdumst með þessum glæfraleik með hryllingi og spurðum drengina hvort þeir myndi ekki hvað hefði komið fyrir þann síðasta sem lék þennan leik. Svo höfum við eflaust klagað. Já snemma hefst áhættuhegðun og spennufíkn.
Annað sem ég man eftir er að hafa gert mér upp hita. Þá lagði ég ennið á ofn í herberginu mínu og fór svo fram og spurði mömmu hvort ég væri með hita. Hún tók á enninu sem var heitt og sagðist halda það og sendi mig inn í herbergi aftur með hitamæli. Í stað þess að stinga honum upp í rassgatið tyllti ég honum bara augnablik á sama ofn og hafði gefið mér ennishitann. Nú og svo þegar hitamælirinn sýndi hæfilega háa tölu fór ég fram með mælinn aftur. Og fékk frí í skólanum. En það er nú gott að mamma getur ekki skammað mig fyrir þetta lengur og einnig er gott að hafa létt á hjartanu þessu óheiðarlega leyndarmáli. 10-11-12.