luxatio hugans

awakening

mánudagur, ágúst 23, 2004

Af gardínum og sveittum karlmannsklofum

Ég keypti mér fyrir nokkru síðan unaðslega fallegt rúmteppi og gardínur í stíl, í Habitat. Þegar heim var komið voru gardínurnar of síðar, en af því að ég hef ýmsum hnöppum að hneppa, þá dróst það að þær færu í styttingu. Þegar ég svo var komin í frí í júlí og hreiðurgerðin orðin yfirþyrmandi, þá ákvað ég að hrinda því í verk að láta stytta þær. Það er eitt og annað sem verður óbærilegt þegar barn er væntanlegt í heiminn og of síðar gardínur er eitt af því. Þetta er mjög áhugavert fyrirbæri og ætti að rannsaka.
Ég finn saumastofu í símaskránni, og það sem er mikilvægast við val á slíku fyrirtæki, er að hægt sé að leggja beint fyrir framan það. Sem afskrifar Laugaveg, Lækjartorg, Kringlu og Smáralind. En saumastofa í Ármúla kom eldheit inn fyrir þessar sakir. Ég hringi á undan mér og þetta fyrirtæki er einmitt í því að stytta gardínur. Svo að ég ríf þær niður og sé að þær eru örlítið skítugar neðst, enda of síðar og stundum er ló í svefnherberginu mínu. Ef að við svo skoðum það aðeins hverjir geta leyft sér, að það sé ló einstaka sinnum í svefnherberginu, þá eru það tvímælalaust 2 læknanemar sem unnu báðir með náminu og eru auk þess að ala upp 6 ára barn. Enginn hroki, bara kalt mat. Þannig að því fer fjarri að ég skammist mín fyrir lónna.
Þegar ég kem svo með gardínurnar í þetta ágæta fyrirtæki í Ármúlanum, þá er það fyrsta sem afgreiðslukonan gerir athugasemd við, að ég hafi ekki þvegið þær. Þær gætu styst í þvotti. Ég er óþolinmóð og fljótfær og ég sagði að ég kærði mig kollótta um það. Ég tæki bara þá áhættu og ég vildi endilega fá þær styttar a.s.a.p. Þá fer gellan að fitja upp á nefið og segir: "En þær eru bara svo voðalega skítugar, ég verð bara líka að hugsa um saumakonurnar mínar, þetta er svo ógeðslegt. Þetta er eins og að skipta um rennilás á skítugum karlmannsgallabuxum"
Ég horfði orðlaus á hvítu svefnherbergisgardínurnar mínar með gráu röndinni neðst og varð hálf sár yfir samanburðinum við klofsvitann. Þannig að ég tók gardínurnar mínar og labbaði út. Alveg dramalaust samt. Ef þessi kona syndir svoleiðis í viðskiptum að hún getur leyft sér að velja kúnna, þá er það frábært. Lifi kapitalisminn. En þessi kúnni kemur ekki aftur.

2 Comments:

At 2:24 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Mér fannst gott hjá þér Allý að fara úr búðinni því nú getur þú orðið nýi talsmaður okkar fyrir umburðarlyndi og æðruleysi. Ég er hissa að þú skyldir ekki hengja kerlinguna í gardínunum í leiðinni til þess að hún gæti ekki móðgað fleiri duglega læknanema. (hehe)

 
At 4:14 e.h., Blogger Ally said...

Hvurn djöfulinn átti ég að gera annað en að fara úr búðinni?? Hún ætlaði ekki að stytta gardínurnar. Það var ekkert flóknara en það.

 

Skrifa ummæli

<< Home