Peningaplokk
Það er algjörlega takmarkalaust hvað reynt er að plokka pening af ófrískum konum. Maður þarf ákveðna gerð af vítamínum, þessi gömlu góðu fjölvítamín verða gagnslaus við það að verða vanfær. Nú þarf maður fjölvítamín sem heita "Með barni" "Móðurást" eða "Pregnacare", þ.e.a.s ef konan raunverulega elskar barnið sem hún ber undir belti. En ef betur er að gáð, þá er innihald þessara vítamína það sama og kostar 1000 krónum meira. Þá hlýtur barni hugulsömu konunnar að vegna betur sem nemur 1000 krónum. Skyldi maður ætla.
Annað er meðgönguleikfimin, meðgöngujógað og meðgöngusundið. Öll önnur hreyfing verður bókstaflega gagnslaus ef hún hefur ekki forskeytið meðgöngu-. Sjálf hef ég látið mér nægja að synda alla meðgönguna og er í fantaformi og afar fögur.
Þriðja eru öll kremin sem ófrískar konur smyrja á sig svo þær verði ekki ljótar og krumpaðar eftir barnsburð. Rándýr krem sem eru vitagagnslaus, þar sem slit ræðst af erfðum og hraða þyngdaraukningar og verður auk þess í leðurhúðinni en kremin takmarkast við hornlagið og flagna af.
Tölum þá aðeins um kremin sem konur eiga að bera á innri skapabarmana í nokkrar vikur fyrir áætlaðan fæðingardag til þess að þær rifni síður í fæðingunni. RIGHT!!
En það síðasta sem ég rakst á og varð kveikja þessarar færslu er brjóstagjafanámskeið fyrir verðandi mæður. Aðeins krónur 2000 fyrir eitt kvöld. Hvernig í andskotanum á að kenna konum með engin börn að gefa brjóst?? Það er eins og að kenna læknanema með enga nál og ekkert fórnarlamb að setja upp nál í handarbak. Engin fræðsla getur raunverulega kennt manni að gera það þegar á hólminn er komið. Þetta byggist allt á því að móðir og barn finni sinn rythma, engin tvö börn eru eins og þetta er bara eitt af því sem verður ekki kennt í bókum. Og skíthræddar frumbyrjur flykkjast á námskeiðið, sannfærðar um að annars muni þeim aldrei takast að gefa barninu brjóst. Svona helvítis kjaftæði getur gert mig bálvonda. Og það er ekki komið hádegi.
3 Comments:
Já, heyr heyr fröken Allý!!!
Þetta er hverju orði sannara. Reyndar förum við makinn á svokallað foreldranámskeið þar sem við lærum að "anda". Tökum svona hraðnámskeið í þessu. Ætli við híperventilerum ekki bara og dettum í gólfið.
Það er svo skrítið. Það er eins og ólétta eigi að vera eitthvað dularfullt, nánast ónáttúrlegt ástand og maður eigi einmitt að kaupa allann fjandann til að laga það. En er það ekki samt svona með allt? Endalaust verið að reyna að selja manni eitthvað drasl. Árstíðabundar auglýsingar úr apótekunum. Júróvisjón snakk. Menningarnætur hamborgarar os.frv. Öll tilefni húkkuð til að plokka út $$$. Sona er idda bara. Maður þarf að þróa með sér ónæmi.
Amma lét sér nú duga að éta slatt meir af sméri.
og það hefur ábyggilega verið full nógu gott!!
Skrifa ummæli
<< Home