luxatio hugans

awakening

miðvikudagur, júlí 06, 2005

Dauðans netleysi

Netið mitt datt út um daginn. Ég hringdi í þjónustuver Símans til að kippa þessu í liðinn. Eftir að hafa beðið í 38 mínútur á línunni (klukka á skjánum á símanum) svaraði mér mesti örviti veraldar. Hann vildi vita hvaðan ég væri að hringja og ég sagðist vera að hringja frá Ólafsfirði.
Örviti: Ólafsfjörður? Er það sama og Ólafsvík?
Ég: Nei
Örviti: Er Ólafsfjörður fyrir austan?
Ég: Nei norðan
Örviti: Já, það var nefnilega rafmagnslaust fyrir austan sem gæti skýrt netleysið.
Ég: Neinei, ég er fyrir norðan.
Örviti: Bíddu ég ætla aðeins að tékka á þessu. (bið) Heyrðu ertu ekki rétt hjá Reyðarfirði?
Ég: Nei
Örviti: Ó það hefði nefnilega getað útskýrt netleysið.

Jæja þá byrjaði guttinn að spyrja út í routerinn minn og kom þá í ljós að hann hafði aldrei séð router sem hét Linksys og kunni ekkert á hann. Þar sem ég hafði beðið í 38 mín eftir þjónustu þá vildi ég vita hvort það væri einhver annar að vinna sem kynni kannski á Linksys. En guttinn fullyrti að svo væri ekki. Hann spurði engan en vissi þrátt fyrir það að enginn af þeim sem var á vakt kynni á Linksys. Þá spurði hann hver hefði tengt hann og ég sagði að maðurinn minn hefði stungið snúrunum í samband. Já okei, sagði guttinn, viltu þá ekki bara biðja hann að hringja í þjónustusímann þegar hann kemur heim? Fífl. Frábært að bíða í allan þennan tíma til að láta örvita segja sér að það sé betra að kallinn á heimilinu hringji í þjónustusímann. Ástæðan fyrir því að ég brjálaðist ekki og lét þetta fífl heyra hvað mér fyndist hann heimskur, er sú að í upphafi símtalsins var sagt að öll símtöl til þjónustuversins væru hljóðrituð. Heppinn hann. Og ég reyndar.

Ástæðan fyrir því að ég er að blogga núna er sú að ég lét mig hafa það að hringja aftur í þjónustusímann, lenti á hrikalega klárum náunga og í sameiningu forrituðum við routerinn minn upp á nýtt. Skrítið að hann kunni á Linksys, hann hlýtur að hafa byrjað að vinna þarna í gær. Og hann spurði ekkert hvort ég væri með typpi áður en við byrjuðum. Og viti menn.. þrátt fyrir að vera kvenmaður gat ég fylgt leiðbeiningum í gegn um síma og komst bara á netið að því loknu. Kúl.