luxatio hugans

awakening

fimmtudagur, október 06, 2005

Langamma Ester


Svona gerist þetta fljótt. Örfáum dögum eftir færsluna mína um ömmurnar tvær sem eftir eru, dó önnur þeirra. Langamma Ester dó 4. október. Það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Því unglegri og hressari áttræð kona var vandfundin. Hún keyrði ennþá silfurlitaða Coltinn sinn, sem hún hafði keypt úr kassanum fyrir 17 árum:) Bílinn er keyrður 45000 og það sér ekki á honum. Hún var að taka slátur daginn sem hún dó. Tók 4 slátur eins og hún var vön. Ca. 50 - 60 keppir það. Hún átti alltaf nóg fyrir grautinn á laugardögum. Maður gat gengið að því vísu að í hádeginu á laugardögum eldaði amma Ester graut. Síðast þegar ég mætti í graut komu 15 manns, allir án þess að boða komu sína sérstaklega áður. Hún átti 54 afkomendur þegar hún lést og hún vissi alltaf hvað var í gangi hjá okkur öllum. Maður kom aldrei að tómum kofanum hjá henni þar. Og hún fylgdist með mér þó ég væri ekki alltaf að hringja í hana og það kom mér oft á óvart hvað hún var meðvituð um það sem var í gangi hjá mér. Ester Helga mín var 50 afkomandinn sem hún eignaðist. Hún heitir í höfuðið á þeim hjónum báðum Ester og Helga sem eignuðust 5 börn og bjuggu á Másstöðum í Skíðadal. Þegar amma Ester var 30 fórst afi Helgi í snjóflóði og hún var orðin ekkja með 5 börn. Elsta 11 ára og yngsta 2 ára. Þegar hreppurinn mætti til að leysa heimilið upp, mætti þeim ung kona með eld í augunum sem sagði þeim að hafa sig á brott hið snarasta eða hljóta ellegar hið verra af. Og hún hafði það af, ein með 5 börn. Það var kannski frekar einhæfur matseðill, en þau voru aldrei svöng og þau komust á legg og eru öll hið glæsilegasta fólk í dag. Við höfum verið að hittast á 2 ára fresti afkomendurnir hennar með hana sem heiðursgest. Síðast núna í júlí á Másstöðum í Skíðadal. Ekkert okkar átti von á því að þetta yrði síðasta skiptið hennar með okkur á þeim mótum. Næst verður hún ekki með okkur. Það er vægast sagt undarleg tilhugsun.
Ég er með brúnu augun mín í beinan kvenlegg frá henni. Allir afarnir sem komu að á leiðinni eru bláeygðir, enda fór það svo að þegar bláu augun hans Dodda mættu, þá gat ég ekki lengur gefið þau áfram. Ég er samt ekki nálægt því jafn dökk og amma Ester var. Ég spurði hana einu sinni hvernig gæti staðið á þessum litarhætti á afdalakrökkum sem höfðu ekki aðgang að sjó og öllum Fransmönnunum sem komu þar í höfn? Þá hló hún og sagði að sér hefði alltaf verið sagt að hann Kristján 10 hefði verið afi hennar. Hann hefði haft einhverja viðkomu í bælinu hjá ömmu hennar á för sinni um landið. En hver veit? Konungborin eða ekki þá var hún kjarnakona með mikla ástríðu og skap, því verður ekki neitað, enda hefur það ábyggilega fleytt henni í gegn um raunir sem hefði bugað flesta. Mér er eftirsjá af þessari konu og ég bar mikla virðingu fyrir henni. Hvíl í friði.