luxatio hugans

awakening

miðvikudagur, maí 10, 2006

Það er eitt málefni ofarlega í huga mínum, nú þegar hallar á seinni hlutann á þessu verknámi. Það er málefni líknardeilda. Það er málaflokkur sem mér finnst að líknarfélög megi fara að huga að. Það eru endalausar safnanir fyrir Barnaspítalann sem er best búna eining LSH, sem er alveg jákvætt útaf fyrir sig. Farsinn í kringum hágæsluherbergið eftir þennan hroðalega Kompásþátt var samt næstum því hlægilegur. Þegar Jóhannes í Bónus beitti 1. Brellu í handbók stjórnmálamannsins. Kæfa neikvæða athygli með jákvæðri.
En snúum okkur þá aftur að líknardeildum. Mér finnst það algjörlega óforsvaranlegt að fólk með lokastigssjúkdóma sé að deyja á bráðadeildum á spítalanum. Það á enginn að þurfa að eyða síðustu andartökunum inni á yfirfullri deild þar sem fólk liggur á göngunum, allt starfsfólkið á harðaspani við að komast yfir dagleg verk og 10-12 læknar ganga stofugang í halarófu. Og nú er ég ekki að segja að deyjandi fólk fái ekki góða þjónustu. Það fær bestu mögulegu þjónustu sem hægt er að veita inni á yfirfullri bráðadeild af fárveiku fólki. Ef þetta væri einhver mér nákominn þá myndi ég ekki vilja láta hann deyja við þessar aðstæður. Ég myndi vilja hafa hann á líknardeild þar sem veitt er fagleg og sérhæfð þjónusta við að auðvelda ferðina að hinu óumflýjanlega. Ekki bara fyrir hinn deyjandi heldur líka fyrir ættingjana. Ég hef átt mín kynni af líknardeildinni og það er yndislegur staður. Mitt í allri sorginni og ömurlegheitunum þá er friðurinn og kærleikurinn á líknardeildinni ómetanlegur.
Það kemst einhvern vegin ekki í tísku að safna pening fyrir málefni sem snýr að dauðanum. Getum við ekki breytt því?