luxatio hugans

awakening

miðvikudagur, júní 28, 2006

Í dag kom Doddi heim og sagði mér sögu af sjálfum sér. Hún var nokkurn vegin svona með hans eigin orðum:

Í dag þegar ég kíkti á tölvupóstinn minn var þar auglýsing um umræðufund um “Reykleysismeðferð. Hver, hvar og hvernig” frá félaginu ”Læknar gegn tóbaki”. Mjög áhugavert og þarft efni til að standa klár á þar sem að ég er að vinna á heilsugæslustöðinni á Selfossi, svo að ég ákvað að mæta.
Mætti á slaginu 16:30. Betra að mæta snemma því léttar veitingar áttu að vera í boði og fyrstu 6 gestirnir áttu að fá DVD diskinn "Doctors and Tobacco- the Masterclass" að gjöf. Frekar hljóðlátt var í húsinu miðað við stórfundinn sem var í uppsiglingu. Rann svo loks á hljóð nokkurra manna sem sátu við borð í einu horninu: “Jæja, fundur er settur. Nú hefst aðalfundur félags lækna gegn tóbaki”.
Í stuttu máli sagt, sátu þennan fund, stjórn félagsins og að auki Guðmundur Þorgeirsson hjartalæknis og yfirlæknir á lyflæknisdeild LSH, Þórarinn Tyrfingsson yfirlæknir á Sjúkrahúsinu Vogi, Jón Steinar Jónsson læknir sem situr meðal annars í vinnuhóp á vegum landlæknis um gerð klínískra leiðbeininga um reykleysismeðferð, Bjarni Jónasson yfirlæknir á heilsugæslustöðinni í Garðabæ og tveir af yfirlæknum innan endurhæfingarsviðs Reykjalundar sem standa meðal annars framarlega í lungna og hjarta endurhæfingu og reykleysismeðferð þeirri tengdri, og síðast en ekki síst, Þóroddur Ingvarsson kandidat á heilsugæslustöðinni á Selfossi. Ég landaði náttúrulega einni af DVD myndunum, þar sem tala gesta utan stjórnar náði ekki sex. Ég stóð mig auk þess ákaflega vel í hugarflugsumræðunni í lokin um það hvað væri best að gera næst í baráttunni gegn tóbakinu.