luxatio hugans

awakening

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Fréttir af neysluverkfalli

Ég veit að landinn iðar í skinninu að vita hvað mér miðar í neysluverkfallinu. Þeir sem halda að hér hafi ekki verið alvara á ferð, fá hér snarlega leiðréttingu. Ég fór í það að fylla frystikistuna mína af fisk og kjöti. Afurðirnar voru keyptar að norðan, beint frá framleiðendum. Engar millistigsálagningar þar, né okur. Kartöflur fengum við líka í sekkjum frá Ytri-Tjörnum. Svo við getum nærst án þess að fara á hausinn. Svo er náttúrulega ágætt að allar fatakyns nauðsynjar voru keyptar á fjölskylduna í Ameríku og það mun ekki verða keypt eitt sokkapar fyrr en ég fer til Las Vegas í apríl. Svo er náttúrulega orðinn dágóður tími síðan ég hætti að lita á mér hárið og ég verð að segja að minn náttúrulegi litur er að koma mér skemmtilega á óvart. Þegar ég var í Ameríkunni þá rakst ég líka á Sjampó frá John Frieda sem heitir Sheer Blonde og á að draga fram náttúrulegar strípur. Gaman að því. En brúsann fann ég á 200 krónur stykkið í Ameríku svo ég keypti náttúrulega 6 brúsa. Enn þá meira gaman að því. Sami brúsi kostar krónur 1190 í íslenskum verslunum svo ég fékk 6 brúsa í Ameríku á verði eins hér heima. Þar sem ég er ekki búin með fyrsta brúsann frá því að ég kom heim í nóvember er ég bjartsýn á að birgðirnar endist mér þar til ég get fyllt á í Vegas. Af augabrúna og augnháralitunum er það helst að frétta að ég hef keypt mér minn eigin lit og Berglind vinkona mín setur það á mig. Svo það er engin hætta á því að konan leggist í kör og ljótleika í neysluverkfallinu. Náttúrulega strípur og bogadregnar augabrúnir eru það sem koma skal.
Svo að þið sjáið það börnin mín að það er massaniðurskurður í gangi og mér er fúlasta alvara. Og þetta er bara prinsipp mál. Maður lætur ekki ræna sig um hábjartan dag og við fulla meðvitund lengur. Það er bara ekki þannig.

Að lokum vil ég hvetja alla til að kynna sér þetta plagg hér frá neytendasamtökunum þar sem þeir hafa tekið saman hækkanir frá heildverslunum og birgjum til verslana. Þeir eru sko byrjaðir að hækka til að tryggja það að niðurskurður virðisaukaskattsins skili sér ekki til almennings. Og auðvitað munum við sniðganga hækkaðar vörur til að sýna mönnum að fólkinu í landinu er nóg boðið. Koma svo fólk! Vakna til meðvitundar hérna!