luxatio hugans

awakening

sunnudagur, mars 25, 2007

Mestu framfarirnar

Æi Ingvar krútt. Það verður sjálfsagt seint um hann sagt að hann sé besti fótboltamaður sem þetta land hefur alið, en frá tveimur þjálfurum hef ég heyrt að hann sé svo skemmtilegur að það sé ómetanlegt að hafa hann innanborðs. Ég hef horft á leiki og spurt sjálfa mig hvort knattspyrna sé nokkuð hans hilla í lífinu en Ingvar er ekkert að pæla í því. Hann fílar stemninguna, búningana og umgjörðina. Að loknu Goðamóti tapaði liðið hans öllum leikjunum nema einum en strákarnir voru hressir með þetta og hrikalega glaðir að vera í keppnisferð. Ingvar hughreysti markmanninn og sagði honum að það væri ekkert honum að kenna þó að öll þessi mörk hefðu verið skoruð hjá honum, heldur bara liðinu öllu:) Sem er náttúrulega dagsatt, en réttsýnn er drengurinn minn. Eftir síðasta leikinn var Doddi svo að hrósa Ingvari fyrir baráttuna í leiknum og þá kom Agnar þjálfari og sagði: "Já hann Ingvar hefur sko tekið gríðarlegum framförum í vetur. Nú er hann farinn að fylgjast með því hvar á vellinum boltinn er!" Og trúið mér. Ég hef horft á Ingvar spila heilu knattspyrnuleikina þar sem hann hafði ekki hugmynd um það hvar boltinn var, né á hvaða mark hann var að reyna að skora. Þrátt fyrir þessar "gríðarlegu framfarir" þá efast ég nú samt um að hann eigi eftir að gera mömmu gömlu ríka í atvinnumennsku en hann mun eflaust halda áfram að gleðja mig með óborganlegum kommentum.