luxatio hugans

awakening

laugardagur, júní 02, 2007

Í dag steig kona, sem mér þykir mjög vænt um, stórt skref í átt til móðunnar miklu. Ég á að sjálfsögðu við að konan er þrítug í dag. Ég má vart til þess hugsa ógrátandi hvernig fyrir henni er komið. Ég hugsa um það hvað hún hlýtur að vera döpur, í peysufötunum, með flétturnar í hárinu. Ef til vill hefur hún fengið sér Kandís til að hressa sig við, kannski fékk hún sér tuggu. Ég get eiginlega ekki ímyndað mér hvernig henni tekst að ráða við þetta. Ég hef á síðustu fjórum og hálfa árinu leitað mikið til þessarar konu eftir ráðleggingum um það hvernig ég eigi að haga mínu lífi en hún gekk sömu braut og ég hef gengið nokkrum árum á undan mér. Ég fæ varla séð að ég geti leitað til hennar úr þessu. Hún hlýtur að vera orðin dement. Það er hrikalegt alveg þegar svona fer fyrir fólki. Og hún sem á lítinn dreng og á von á öðru barni. Að hugsa sér. En öll sorgleg mál eiga sér sínar björtu hliðar. Hún á sem betur fer kornungan eiginmann. Guði sé lof fyrir það.