luxatio hugans

awakening

mánudagur, ágúst 27, 2007

TANNGÓMATANGÓ

Ég er að lesa Óðfluga eftir Þórarinn Eldjárn fyrir Ester Helgu. Það eru ánægjulegir endurfundir því hana lásum við með mikilli ánægju fyrir Ingvar.
Mesta snilldin finnst mér vera ljóðið Tanngómatangó. Ég ætla að leyfa ykkur að njóta þess með mér og vona að Þórarinn fyrirgefi mér það að auglýsa ljóðið hans.

Áðan er ég var
uppi á Freyjugötu
sá ég saman þar
sjöhundruð tanngóma í fötu.
Er mig að það bar
var einn þeirra japlandi mangó
og einn var algert skar
og annar bað um svar,
en hinir stigu tanngómatangó.

Illa varð mér við,
var þetta yfir strikið?
Svona séð frá hlið
sjöhundruð virtist of mikið.
Nú upphófst einhver bið,
uns allir þeir tóku að spangó,
la, þeir sungu: SVIÐ-
ASULTU ÞARF OG FRIÐ
TIL AÐ STÍGA TANNGÓMATANGÓ.


Hitt eftirlætið mitt er Bókagleypir. Ég hvet ykkur sem eigið börn að verða ykkur úti um þessa bók. Hún er drepfyndin og börnin læra rím á meðan foreldrarnir hlæja.