luxatio hugans

awakening

laugardagur, október 27, 2007

Misskilningur.... hvernig verður hann til?

Ég fór með vinkonu minni á fimmtudagskvöldið að hitta konu sem ég var búin að ákveða fyrirfram að væri með paranoid schizophreniu. Það var svosem ekki úr lausu lofti gripið, ég misskildi bara aðeins hvern við værum að fara að hitta. Þessi vinkona mín á mömmu sem er geðklofi og svo mömmu sem hún ólst upp hjá. Okei pínu flókið. En hún biður mig að koma með sér að hitta mömmu sína á hóteli og ég ákvað að það væri sú með geðklofann án þess að spyrja frekar því ég veit að uppeldismamman býr úti á landi. Svo hitti ég þessa konu og þá vill þannig til að síminn hringir hjá vinkonu minni og við erum því bara tvær einar ég og mamman. Ég er vel upp alin og brydda upp á kurteisishjali við mömmuna. Þar sem ég var búin að ákveða að konan sem ég var að tala við væri með geðklofa og ofsóknarhugmyndir þá tókst mér að túlka allt sem hún sagði og gerði á þann veg. Hún var með gsm síma sem var að taka myndir í gríð og erg og hún spurði hvort ég kynni að laga svona síma sem væri alltaf að taka myndir óumbeðið. Ég brosti kurteisislega með empathiubrosinu mínu og sagðist ekki kunna það. En hugsaði með mér að þarna væri nýstárleg ranghugmynd á ferð. GSM sími með eigin vilja. Ég var reyndar pínu hissa á því hvað hún var vel til fara og leit í raun og veru út fyrir að vera heilbrigð. Ég spurði hana líka hvað hún væri búin að búa lengi á þessu hóteli, því síðast þegar ég vissi var hún á sambýli. Hún sagðist ekki búa á þessu hóteli heldur vera í viðskiptaferð. Ég brosti líka fallega empathiubrosinu mínu og kinkaði með uppörvandi hætti kolli yfir þeirri ranghugmynd að konan væri í fjármálabransanum. Svo í miðjum klíðum þá runnu á mig tvær grímur, og ég þurfti að fara til baka í tímann í huganum og rifja upp fyrri samtöl mín og vinkonunnar og þá allt í einu áttaði ég mig á því að þetta var mamman sem var ekki geðklofi.
Vúff þetta slapp fyrir horn. Ég kom aldrei upp um mig...... ekki þannig lagað en sjálfsagt hefur mömmunni þótt ég einkennileg, ég veit það ekki.
Þá var aumingjans konan bara í viðskiptaferð í borginni og með bilaðan gsm síma sem tók myndir látlaust;) Óþarfi að stimpla hana með geðsjúkdóm fyrir því!