Prófessor Viðutan
Ég er að vinna á Akranesi alla helgina og hlutirnir heima eru greinilega í ólestri. Ingvar sonur minn fór á fótboltaæfingu í gær. Hann klæddi sig í fótboltatreyju, rauðu Vals flíspeysuna utanyfir, fótboltasokka og fótboltaskóna. Hann gleymdi hins vegar að huga að neðri hlutanum en var sem betur fer allavega í BRÓK. Svo fór minn maður út úr húsi svona múnderaður á brókinni einni saman, labbaði niður Eskihlíðina og í Valsheimilið og fór á fótboltaæfingu og rölti svo sem leið lá heim aftur. Þar mætti Þóroddur, eiginmaður minn, syni sínum á brókinni á bílaplaninu heima og er skemmst frá því að segja að Þóroddi var ekki skemmt. Ingvar sagðist hins vegar hafa fattað það þegar æfingin var rúmlega hálfnuð að hann var á brókinni!!!! ER ÞETTA HÆGT??!!! Er eitthvað etiquette í gangi við svona aðstæður? Hringir maður í þjálfarann og biðst afsökunar oder?
Ég trylltist úr hlátri í morgun þegar Doddi hringdi í mig og sagði mér þetta og þá var Doddi nú líka farinn að hlæja að þessu. Ég losna bara ekki við myndina úr hausnum af Ingvari í allri fótboltamúnderingunni og svo brókinni einni saman á röltinu niður í Valsheimili:)
<< Home