luxatio hugans

awakening

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Klámráðstefnufárið

Ég þoli það ekki að það sé kúl að vera fylgjandi því að hér sé haldin klámráðstefna en hallærislegt kerlinga-, eða jafnvel blótsyrðið feministavæl, að vera á móti henni. Móðursýki! hrópa menn (og konur) sem eru svo svalir að þeir láta ekki sýki kennda við leg ná tökum á sér. Oj eins og það er nú viðbjóðslegt að vera með leg þrátt fyrir að það hafi fóstrað allar lifandi verur, líka jakkafataklædda peningastráka, inn í þennan heim. Málið er, frá mínum bæjardyrum séð, að ekki er hægt að halda því fram að maður sé fylgjandi klámi, svo framarlega að það séu hamingjusamar konur sem tóku upplýsta ákvörðun um að misbjóða líkama sínum á þennan hátt en bara ekki hinu kláminu þar sem ofbeldi og misnotkun hefur átt sér stað. Þarna á milli er grá lína, óljós lína, eða bara jafnvel engin lína. Það er eftirspurnin eftir klámi sem skapar þennan iðnað. Það er eftirspurnin sem skapar markað fyrir það að konum og börnum er rænt, þau seld, nauðgað og myrt út um allan heim og afurðin er seld. Þetta er viðbjóðslegt og það ekki hægt að vera með fullu viti og halda því fram að maður skapi einungis eftirspurn eftir "heilbrigða, jákvæða" kláminu. Svo lengi sem að það er eftirspurn þá mun þetta mansal með konur og börn eiga sér stað. En þetta er sjálfsagt eins og með dópstríðið, tapað stríð sem mun aldrei vinnast. En í guðanna bænum sjáið þá samt sóma ykkar í því að segja með stolti að þið séuð á móti klámiðnaðinum. Því það er ekkert móðursýkislegt við það að vilja ekki að konum og börnum sé nauðgað í ágóðaskyni. Og hvað hamingjusömu klámmyndaleikarana varðar, þá þarf enginn að segja mér það að þar liggi ekki eymd að baki. Það gerir enginn svona með heilbrigða sjálfsvirðingu. Það þarf ekkert að segja mér það. Svo ef þið eruð enn í vafa hver skoðun mín er þá finnst mér svívirða að hýsa einhverja klámráðstefnu hér og bara allt í lagi að mótmæla og láta þessi ráðstefnugesti vita að það er enn til fólk með heilbrigð viðhorf.