luxatio hugans

awakening

miðvikudagur, maí 07, 2003

Þar sem ég lá andvaka undir morgun, þá rifjaðist upp fyrir mér minning úr æsku. Ég hef ákveðið að deila henni. Sjálfsagt er dómgreind mín skert af svefnleysi, but here goes: Þegar Allý byrjaði á blæðingum og afleiðingar þess!
Þetta hófst allt einn morgun í desember að ég fer á fætur og fer á klósettið. Þar varð mér ljóst að eitthvað hræðilegt hafði gerst. Ég var byrjuð á blæðingum! Augljóst var að ég hafði misst mikið blóð og myndi sennilega deyja. Við þá tilhugsun fannst mér að ég næði ekki andanum og ég staulaðist því að útidyrahurðinni til að fá ferskt loft. Við bjuggum uppi í sveit á þessum tíma, því pabbi var einn af þeim sem var að byggja Blönduvirkjun og við bjuggum tímabundið í húsi sem stóð á jörð, sem annar bóndi stundaði búskap á. Anyways. Fyrir framan húsið var stétt og möl og það steinlíður yfir mig, annar helmingurinn af andlitinu lenti í stéttinni og hinn á mölinni og gleraugun brotnuði. Þetta voru ein af þessum undurfallegu gleraugum sem ég átti í æsku. Þegar ég rankaði við mér, var ég að drepast úr kulda því ég hafði ekki klætt mig, þegar ósköpin dundu yfir. Ég var því mjög ósmart. Ég skreið inn í hús og lá í forstofunni og gólaði á mömmu sem enn var sofandi þennan morgunin. Hún kom og henni brá mjög þegar hún sá mig, náhvíta í framan og illa útleikna í andlitinu. En henni varð nákvæmlega jafn skemmt þegar hún vissi hvað hafði gerst og lagði engan trúnað á það að ég væri dauðvona, hún þóttist vita betur en það. Allavega ég tók af henni hátíðlegt loforð að hún mætti aldrei aldrei aldrei segja neinum hvað hafði gerst. Þá virtist þetta allt að baki.... Mamma hafði sótt um að fá sumardvalabörn í vistun í gegnum félagsmálastofnun þá um sumarið og nú komu tvær ágætar konum frá þeirri stofnun til að skoða tandurhreint heimili okkar. Svo er setið inni í eldhúsi og málin rædd, þegar ég kem inn í eldhús, með samanlímd gleraugu, glóðurauga á öðru og andlitið allt í skrámum. Þessar ágætu konur, sem sérhæfa sig í heimilisofbeldi, sáu undir eins að eitthvað hefði gerst. Svo ég var spurð mjög vinalega hvað hefði komið fyrir mig. Ekkert, sagði ég strax og sendi mömmu drápsaugnarráð sem minnti hana á loforðið sem hún hafði gefið mér. Þetta tóku góðu konurnar ekki trúanlegt og spurðu aftur og nú með aðeins meiri ákveðni. Nú svo ég sagði að það hefði liðið yfir mig, en bara af hræðslu... Leið yfir þig af hræðslu? Nú, gerist það oft??, spurðu góðu konurnar. Já, já sagði ég. Það líður oft yfir mig af hræðslu. Sem var sannleikanum samkvæmt, því þennan vetur hafði liðið yfir mig í öllum bólusetningum, berklaprófum og blóðprufum. En sá litli fróðleikur fylgdi ekki sögunni. Þannig að þessi tvö félagsmálaljón, fóru aftur til baka, með þá hugmynd af mömmu að hún væri svoooo hræðileg, að hún þyrfti ekki að beita okkur ofbeldi, það leið hreinlega yfir okkur af hræðslu í návist hennar. Mamma var mjög æst, þegar konurnar voru farnar. Af hverju mátti hún ekki segja hvað gerðist? Af hverju sagðiru þetta? Eða hitt? Og þetta var rætt af foreldrum mínum næstu dagana og skaðinn metinn. Allavega. Svo er haldið jólaboð um jólin þar sem tvenn vinahjón foreldra minna eru boðin og þau áttu glás af krökkum á mínum aldri. Líf og fjör það kvöldið og ég var að byrja að jafna mig á hörmungum síðustu daga. Þar til Þórgunnur systir mín tekur sér stöðu inni í stofu og tilkynnir: Allý er byrjuð á blæðingum og það leið yfir hana. Algjört rothögg. Ég á ennþá eftir að ná mér niðri á þessu litla skrípi. Það mun gerast!!!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home