luxatio hugans

awakening

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Litli snillingurinn

minn fór í skólann í 1. skipti í dag. Ég tók mynd af honum með skólatöskuna á bakinu í forstofunni áður en við lögðum af stað í skólann. Íhugaði að taka myndavélina með, en ákvað svo með sjálfri mér að það væri náttúrulega geðveiki á hæsta stigi, og myndavélin varð eftir heima. Við löbbuðum svo í Hlíðaskóla eftir kúnstarinnar reglum í grenjandi rigningu. Ingvar kann að sjálfsögðu á klukku, eins og öll gáfumannabörn, og vissi að hann ætti að vera mættur klukkan 8.10 og fylgdist AFAR nákvæmlega með því. Ég hélt stundum að hann myndi hrasa því hann horfði ekkert framfyrir sig, bara á úrið, sem er vel, þegar kemur að því að hann fer að labba sjálfur. Við fórum svo í röðina okkar fyrir utan skólann og biðum eftir því að kennarinn kæmi út að ná í þau. Ég blótaði mikið í hljóði þegar hinir foreldrarnir drógu upp stafrænu myndavélarnar sínar og mynduðu litlu englana sína sem stóðu stillt og prúð í röðinni 1. daginn. Myndavélablossarnir minntu svo á það sem maður sér í úrslitunum í 100 m spretthlaupi karla á Ólympíuleikunum, þegar kennarinn kom út á tröppurnar og litla röðin trillaði sér inn. Fjandinn!! Enn og aftur lít ég út fyrir að elska barnið mitt minnst!! Verð að koma mér í foreldraráðið og eyða misskilningnum þar með látlausum uppákomum. Líf og fjör.