Helgartilboðin
Ég elska ömurlega léleg tilboð sem stórmarkaðir reyna að láta líta út fyrir að séu guðsgjöf til almennings. Í dag auglýsir Hagkaup frosnar, innfluttar, danskar kjúklingabringur á 1399 kr. pakkann í stað 1499 kr. áður. Vei, nú get ég loksins gert allt sem mig hefur dreymt um fyrir 100 kallinn minn. Er þetta virkilega að breyta einhverju fyrir nokkurn mann?? Mun salan á bringunum rjúka upp úr öllu valdi?? Hvað er annars málið með verð á kjúklingabringum? Það var nýtt fólk að flytja á 1. hæðina hjá mér. Þau voru að flytja heim frá Danmörku og keyptu íbúðina á verði sem gladdi mitt gráðuga hjarta, en það er önnur saga. Nema hvað að Doddi rakst á þau í Nóatúni ekki alls fyrir löngu. Þar stóðu þau við kælinn og héldu á bakka af kjúklingabringum sem þau störðu á í örvæntingu. Doddi sagðist hafa hálfvorkennt þeim og var að hugsa um að splæsa á þau bringunum á meðan þau væru að komast yfir mesta áfallið.
Annars þarf ég ekki að hafa miklar áhyggjur af kvöldmat í kvöld, held ég. Ég er að fara í síðasta verklega sýklafræðitímann minn á eftir og við eigum að hitta snýkjudýr í dag. Efast um að lystin verði upp á marga fiska eftir viðveru með njálgum og lúsum og alls kyns öðrum viðbjóði.
<< Home