luxatio hugans

awakening

miðvikudagur, mars 02, 2005

Viðutan

Ég lenti í spaugilegu í dag, þó svo að það hafi ekki verið nálægt því jafn fyndið og það sem Robbi vinur minn lenti í. Ég var í verklegu prófi í dag, og það er alveg sama hvað próf gilda fáar prósentur, maður verður alltaf jafn úrvinda og steiktur eftir þau. Jæja, ég þurfti svo að sækja Dodda á Klepp, og það þurfti hvað eftir annað að flauta á mig á gatnamótum af því að það var löngu komið grænt og ég sat og góndi út í loftið eins og kona með trichophagiu á háu stigi. Ég sem venjulega reykspóla af óþolinmæði á rauðu ljósi. Well. Þegar ég var að keyra niður Skeiðarvoginn þá byrjuðu allt í einu allir bílar að blikka háu ljósunum á mig. Ég athugaði ljósin, og jú, þau voru kveikt. Fólk hélt áfram að blikka ljósunum og banda höndunum eitthvað og þá allt í einu áttaði ég mig á að ég var að keyra á móti umferð. Tvöföld akrein í báðar áttir og umferðareyja á milli. Nú ég komst ekkert og hélt því áfram að keyra á móti umferðinni. Ég íhugaði að snara mér upp á umferðareyjuna, en hún var eitthvað óvenjulega há og með runnum á. Svo að ég brosti brosi þess sem er að biðjast afsökunar, til forviða ökumanna sem ég mætti, þar til að ég komst að gatnamótum og náði naumlega að bjarga lífi mínu og komast á réttan vegarhelming. Jamm.