Skjótt skipast
veður í lofti.
Daginn eftir hina glaðlegu bloggfærslu sem var svo væmin að hver heilvita grami einstaklingur hefði getað kastað upp, ákvað frú Aðalheiður að endurtaka leikinn. Veðrið var gott og því upplagt að hjóla aftur á fund. Ég hjólaði fram hjá tjörninni en í staðinn fyrir alla litlu sætu andarungana frá deginum áður var nú krökkt af kríum. Þær steyptu sér niður að mér hver af annari þegar ég hjólaði framhjá þeim. Ég hugsaði þeim þegjandi þörfina og velti því fyrir mér hver tæki það að sér að drepa kríur í miðborg Reykjavíkur, hvernig hann færi að því og hverju hann klæddist á meðan................ Jæja jæja. Ég kem svo í Gula og hjólið mitt fer bak við hús. Húsið fullt af fólki í andlegu prógrami, þó svo að það hafi ekki endilega verið augljóst af fundinum að dæma, svo að ég treysti guði fyrir hjólinu mínu. Á fundinum sjálfum upplifði ég tímasóun að sitja þarna inni, fannst að ég gæti nú frekar verið að skrifa ritgerð, sem er ekki gott þegar maður er á fundi. Allavega. Þegar ég kem út að loknum fundi dauðans er búið að stela fallega nýja hjólinu mínu. Humm. Fullt hús af fólki í heiðarleikaprógrami og hjólið sást ekki frá götunni. Ég hitti ágætt fólk frá mínum heimabæ sem bauðst til að skutla mér á Lansann svo ég gæti nú skrifað ritgerð og haldið mínu striki þrátt fyrir hjólastuldinn ógurlega. Þegar ég kem á lansann, pínu pirruð, samt ekki mikið, þá liggur tölvu og símakerfi LSH niðri og ég komst ekki inn í neitt af draslinu mínu. Í fréttunum um kvöldið kom það fram að kerfið er svo fullkomið að áður var talið að þess konar bilun gæti ekki átt sér stað í kerfinu. Jájá.
<< Home