Hjartans mál
Fór í fyrstu opnu hjartaaðgerðina mína fyrir helgina. Fyrirfram hafði mér verið sagt að ég fengi ekki að skrúbba mig inn vegna plássleysis. Ég var svo sem alveg sátt við það, þar sem ég átti að mæta í foreldraviðtal í skólanum hjá Ingvari klukkan 14.00. Ég stóð því alveg róleg hjá svæfingunni þegar deildarlæknirinn kemur vaðandi inn á skurðstofuna og sagði mér að skurðlæknirinn vildi að ég kæmi að þvo mér og ég ætti að flýta mér. Ég rauk fram, og á leiðinni að vaskinum verður mér litið á hendurnar á mér og sé gullhringina mína 3 sem ég er búin að ganga með, í yfir 10 ár. Ríf þá af mér og set þá í brjóstvasann á skurðstofugallanum. Gott múv eins og seinna sannaðist. Nú svo þvæ ég mér og þegar ég kem inn á skurðstofuna klæðir skurðlæknirinn mig í. Gott og vel. Það hefur aldrei gerst áður. Það voru öll tákn á lofti um að þetta væri eitthvað viðsnúið. Jæja hefst þá aðgerðin. Bringubeinið er sagað opið og þar sem ég er nú dauðsteril þá er ég nánast ofan í sárinu. Þegar það var opnað inn í gollurshúsið og hjartað blasti við og sló svo fagurlega, þá táraðist ég. Ég trúði þessu varla að þetta væri hægt og trúði því varla að ég stæði þarna og héldi um ósæðina og finndi straum blóðsins upp í hana. Ég þekkti líka sjúklinginn ágætlega frá deginum áður og fannst þetta allt hið magnaðasta.
4 tímum seinna var ég aftur gráti nær. Í þetta skipti af leiðindum. Og aftur trúði ég því ekki að ég stæði þarna........... í sömu sporunum, að deyja úr hita og verk í hnjánum. Hversu langan tíma tekur þetta, spurði ég sjálfa mig og leit á klukkuna á veggnum sem sýndi að ég var að verða of sein í foreldraviðtal. Þá voru þeir nú sem betur fer að byrja að loka og ég sagði bara: "Strákar, ég er að fara í foreldraviðtal. Þið lokið þessu bara." Nei ég sagði það ekki. En það hefði verið kúl. En þarna var ég orðin of sein. Reif af mér sterila gallann og hljóp fram. Inn í búningsklefa, úr skurðgallanum, skurðgallinn í stampinn, í fötin mín og út af spítalanum.
Mörgum klukkustundum seinna lít ég á hendurnar á mér og öskra. Jamm. Glataðir að eilfífu.
<< Home