luxatio hugans

awakening

sunnudagur, október 16, 2005

MaggaVaff

hefur klukkað mig. Er hægt að klukkast aftur? Því hef ég ákveðið að koma með eina litla, en jafnframt afar auðmýkjandi, sögu af sjálfri mér.
Ég hef fengið eiginhandaráritun hjá Geirmundi Valtýssyni. Ég var 11 ára. Ég bjó í Skagafirði. Það var ekki kúl, en Geirmundur þótti hinsvegar mjög kúl þar. Foreldrar mínir voru á Þorrablóti í Miðgarði og Geirmundur var að spila. Ég var heima að passa systkini mín. Þá fékk ég þá flugu í hausinn að ég þyrfti hreinlega að fá eiginhandaráritun Geirmundar sama hvað það kostaði. Ég hringdi því í Miðgarð og náði sambandi við einhvern sem vann á barnum. Ég tjáði honum að ég yrði að tala við pabba minn hið óðara. Viðkomandi skynjaði alvöru málsins og rauk upp á svið og lét hljómsveitina kalla Jóhannes Björnsson upp með þeim skilaboðum að hann yrði að hringja samstundis heim. Pabbi minn, sem sá fyrir sér að húsið stæði í ljósum logum, hringdi strax heim með öran hjartslátt. Þar var ég hin hressasta og bar upp mitt mikilvæga erindi. Ég man nú ekki eftir að hann hafi reiðst mér neitt voðalega og eiginhandaráritunina fékk ég morgunin eftir. Fjölskylda mín segir þessa sögu reglulega þegar ég "erann". Ég er ekki ennþá komin með húmor fyrir þessu, en ég er nýlega komin yfir það að vilja deyja þegar sagan er sögð. Það er nú progress, allavega ekki prolapse!