Ágætis afmælisveisla
Við vorum að koma heim úr 1. árs afmæli sem hefði fengið hvaða íslensku geðsýkisfermingarveislu til að fölna í samanburði. 1. árs varð barnabarn einnar úr filippeysku mafíunni sem Lydia tilheyrir. Okkur var reyndar boðið í skírn sama barns fyrir tæpu ári en þá komumst við ekki. En þessi bætti það upp því gjafastafla hef ég aldrei séð stærri, fjölda rétta hef ég aldrei séð fleiri, háværari og hressari gesti ekki minglað við fyrr og gestrisnin var með eindæmum. Afmælisbarnið lét sér fátt um finnast um borðana með myndunum af því sem þöktu veggina og óskuðu honum til hamingju með áfangann. Ég sá hann heldur ekki fá sér af afmæliskökunni sem var á við brúðartertu. En annars var hann hress með partýið held ég. Ester Helga var eins og álfur hlaupandi um, algjörlega hvíthærð, umkringd svarthærðum strákum, engum stelpum. Það fannst henni fjör. Lydia segir að Ester has the attitude of a boy. Hún er allavega ekki jafn pen og filippeysku stelpurnar. Góð tilraun var gerð til að fylla Þórodd með sama árangri og venjulega. Það gæti verið áhugavert að raðgreina genamengi okkar Þóroddar og stilla þeim upp hlið við hlið, áhugamenn um nóbelsverðlaun hafi endilega samband. Gott flipp að koma fullur heim úr 1. árs afmæli. Doddi a.k.a CrazyinTheBrainhouseManiac lét það þó vera í þetta skiptið. Þegar við yfirgáfum samkvæmið var svo að hefjast æsileg karaoke keppni milli liðs A og B. Mér var ekki boðin þátttaka og sætir það undrun. Kannski Doddi hafi komið þeirri lygasögu á kreik í afmælinu að ég gæti ekki sungið, þar væri honum rétt líst. Ef fólk bara vissi hvað ég þarf að búa við..........
<< Home