luxatio hugans

awakening

sunnudagur, júní 03, 2007

Af leikkonum og líkamlegri þreytu

Ég fór í hreint út sagt yndislega útskriftarveislu í gær. Kristín Þóra er orðin leikkona með stimpil uppá það. Ég var búin að kannast við hana í smá tíma, því við kynntumst hægt, áður en ég spurði hana hvað hún gerði í lífinu. Þegar hún sagði mér að hún væri í leiklistarskólanum þá fékk ég svona "auðvitað tilfinningu" Hvað annað? Ég hefði átt að geta sagt mér það sjálf;) Hún var svo glæsileg í gær, og fólkið hennar svo stolt af henni. Fallegt.

Líkaminn er undarlegt fyrirbæri. Í dag, á fimmta degi frá próflokum, er ég gjörsamlega örmagna. Ég hef vart getað reist höfuð frá kodda í dag án þess að yfir mig hellist heiftarleg yfirliðstilfinning. Vonandi verð ég sprækari í fyrramálið í vinnunni. Það gæti orðið neyðarlegt ef sjúklingarnir þurfa að veita mér fyrstu hjálp. Nú ligg ég uppi í rúmi með fartölvuna, ó dásamlega tækni, og eiginmaður minn eldar Flosahumar í eldhúsinu. Það er ekki fræðilegur möguleiki að það sé einhver betur gift en ég. Ekki fræðilegur.