luxatio hugans

awakening

sunnudagur, júlí 13, 2003

Jæja ég er komin heim frá Köben. Það var mergjað í Köben. Mergjað er kannski ekki alheitasta slangrið í dag. Það var allavega mjög skemmtilegt. Ferðin var Ingvarsmiðuð. Þ.e.a.s það var farið í Zoologisk Have, dýragarðinn fyrir þá sem fengu undir 5 í dönsku og muna ekki eftir spes kafla um ferð í Zoologisk Have í dönskubókinni. Allavega. Svo fórum við á Bakken í tívolíð þar og þar fór ég í eitthvað viðurstyggilegt powerball og það eina sem ég gat hugsað um var að ef það gæfi sig skrúfa þá væri ég dauð. Hvernig fær maður þá flugu í hausinn að skemmta sér á þennan hátt?? Svo fórum við náttúrulega á Istegade þar sem hórur Danmerkur halda til, topplausir barir, hjálpartækjaverslanir, peep show og annað þesslags. Og hvað voru Konan sem ekki drekkur, 5 ára sonur hennar og vanfæra konan að flækjast þar?, gæti maður spurt sig. Jú því á Istegade var veitingastaðurinn Indus þar sem mátti fá gómsæta Indverska rétti. Ég og Begga erum báðar með ástríðu fyrir Indverskum mat, já og reyndar mat yfir höfuð. En þessi furðulega þrenning átti jafnlítið heima í Kristianiu en þangað skelltum við okkur samt. ÚFF lyktin þar...... Reyndar var ég búin að lofa sponsornum mínum að hringja ákveðin símtöl ef mér dytti í hug að fara niður í Stínu, en þar sem ég fór sem túristi en ekki neytandi þá sá ég ekki ástæðu til þess. Þvílíkur staður. Öðrum megin eru seldir minjagripir um Kristianiu og hin ÝMSU áhöld til neyslu fíkniefna, ég hafði ekki einu sinni hugmyndaflug til að ímynda mér í hvað allt þetta drasl er notað. Hasspípur af hundrað gerðum og ýmis sigti og síur og ................ Hinum megin voru svo sölubásar dauðans. Bás eftir bás með útstillingu á þeim fíkniefnum sem voru þar til sölu. Allir sjálfir að reykja sem unnu í básunum, ungar og fallegar stelpur jafnvel. Reyndar er ég ung og falleg, hvað er ég að tuða?! Svo fórum við í tívolíð í Kaupmannahöfn, við fórum á ströndina og urðum brún, við borðuðum á Nyhavn sem er magnaður staður. Ekki hægt að lýsa stemningunni þar þegar fór að dimma. Þetta var bara mögnuð ferð. Takk Begga, Benni, Bumbubenni og Hera. Vi ses i Reykjavik Island:)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home