luxatio hugans

awakening

sunnudagur, janúar 09, 2005

Lítið kraftaverk

Ég get ekki sofið. Ég er hátt uppi eftir að hafa horft á lítið kraftaverk líta dagsins ljós í fyrsta skipti. Barbara vinkona mín var að eiga stelpuna sína og vildi hafa mig hjá sér. Enn einn ávinningurinn í mínu lífi af edrúmennskunni. Ég veit ekki um nokkurn mann sem hefði viljað hafa grumpy, gömlu Allý í fæðingunni sinni fyrir rúmum tveimur árum. Og ég skil það vel enda hafði ég ekkert að gefa þá.
Barbara hetja. Við fórum saman á Flórída í kvöld þar sem ég fékk tveggja ára peninginn minn. Hún skilaði mér heim um 23.00 leytið og sagðist kannski ekki vera frá því að það gæti eitthvað gerst. Hringdi 00.30 búin að missa vatnið og ætlaði að hafa samband upp á deild. Mummi hringdi svo 01.30 og sagði mér að koma hið snarasta upp á deild ef ég ætlaði að ná þessu. 02.47 er sæt lítil prinsessa komin í heiminn og ég fékk að klippa á naflastrenginn. Takk Mummi. Barbara var alveg eins og hetja. Fékk engar deyfingar, ekkert glaðloft, engar nálastungur, bara ekki nokkurn skapaðan hlut, og gerði þetta samt eins og hún væri að drekka vatn. Allt ósköp áreynslulaust. Það var ólýsanlegt að sjá lítinn haus gægjast í heiminn og að lokum barnið fæðast og byrja að orga. Hún var alveg voðalega falleg og ósköp lík mér. Hún þekkti samstundis í mér röddina enda væri annað óeðlilegt eftir allt sem hún hefur þurft að hlusta á mig tala. Ég verð ábyggilega uppáhaldið hennar. Allavega veit ég það að gellurna eiga eftir að verða grænar úr öfund í grúppunni á morgun.
Til hamingju Barbara, Mummi, Anika og Aron með sætu litlu prinsessu.