luxatio hugans

awakening

mánudagur, janúar 24, 2005

Ævisagnaæði

Ævisagnaæði er flott orð. Ég var að klára Jónas Hallgrímsson eftir Pál Valsson. Hún er alveg hrikalega skemmtileg. Það er algjör tilbúningur að Jónas kallinn hafi verið drykkjurútur og aumingi. Þvert á móti var hann einn af þessum harðduglegu Íslendingum sem skvetta ærlega í sig. Jæja nóg um það. Bráðskemmtileg bók. En þá gat ég loksins byrjað á Hallóri Laxnes sem ég fékk í jólagjöf. Ég fékk bókina hans Halldórs Guðmundssonar, sennilega eitthvað pínu ritskoðuð, en hvað um það. Eitt hefur Hannes kallinn þó framyfir þennan Halldór. Það er að skipta bókinni í þrjú bindi. ALDREI nokkurn tíma hef ég reynt að lesa þyngri bók. Þetta er heilsuspillandi, maður fær vöðvabólgu. Einn minn helsti munaður í lífinu er að lesa í baði, það geri ég mikið. Ég reyndi að fara með Laxness kallinn í bað í gær og það var ekki hægt. Ég gat ekki haldið á bókinni fyrir ofan vatnið. Samt er ég ekkert æðisleg aum neitt. Humm. Ég held stundum að ég sé á rangri hillu í lífinu. Ég er læknanemi með óslökkvandi sagnfræðiþorsta. Ég finn ekki fyrir þessum óslökkvandi þorsta í meinafræðibækurnar, það væri óskandi. Þá kæmi ég miklu í verk. Það hefur ekki komið út sú ævisaga síðustu ár, að ég hafi ekki lesið hana. Nú hrópa ég eftir almennilegri ævisögu um meistara Þórberg og eins væri afar áhugavert ef einhver nennti að skrifa um Brynjólf Pétursson. Annars þarf ég kannski að gera það.