luxatio hugans

awakening

mánudagur, janúar 17, 2005

Tenutex

Hér kemur lítil saga. Hún er innblásin af tvennu. Annars vegar því að nú eru ótalmargir búnir að benda mér á, að það stendur alls ekki Flatlús á veggnum undir hlíðum Esjunnar, heldur Flatus. Hvaða andskotans rugl er Flatus??!! Jæja þar sem heil færsla er þar með fallin um sjálfa sig þarf að gera gott úr þessu, ég mun koma flatlúsinni að. Hins vegar kemur innblásturinn úr því að ég er með hypochondriu eins og áður hefur komið fram. Frá því að ég man eftir mér hef ég verið sannfærð um það að ég sé að deyja úr hinum ýmsustu sjúkdómum.
Það var svo í sumar að ég bólgna öll upp á sköflunginum. Verð rauð og þrútin og aum viðkomu án þess að nokkur áverki hafi komið til. Jæja ég fletti upp í hausnum og kemst að því að þetta eru dæmigerð einkenni blóðtappa. Það er svo bara tímaspursmál hvenær blóðtappinn fer af stað, veldur lungnaemboliu og þar með bráðum dauða mínum. Svo að ég skelli í mig magnyl og panta tíma hjá lækni sem myndi taka frekari ákvarðanir um meðferð blóðtappans. En nei. Læknirinn ungi var nú ekki á því að ég væri með blóðtappa. Hann rýnir í þrútna svæðið og þykist greina klórför og spyr mig hvort mig klæji þarna. Ég er ekki viss og fer að spá í það og er þá ekki frá því að það geti verið að mig klæji þarna. Læknirinn ungi segist þá halda að ég sé með kláðamaur og spyr mig hvað ég starfi. Ég segist vera nýbyrjuð í sumarafleysingum á leikskóla. Bingó, segir læknirinn ungi. Klárlega kláðamaur. Svo spyr hann mig hvort mig klæji á fleiri stöðum og það er við manninn mælt að ég iða öll af kláða sem blossar upp um allan líkamann. Jæja hann skrifar svo út heljarinnar magn af áburði sem öll fjölskyldan á að bera á sig til að drepa vágestinn. Doddi átti ekki til orð þegar ég sagði honum hvað læknirinn hafði sagt. Reyndi að malda í móinn að ég gæti hreinlega ekki verið með kláðamaur en ég hlustaði ekki vegna kláðans sem var orðinn óþolandi. Við fórum saman inn í apótekið og leysum út marga lítra af Tenutex áburðinum. Stöndum þarna saman og fáum lyfið okkar. Í bílnum á leiðinni heim fer ég svo að lesa mér til og sé að lyfið er einkum ætlað til meðhöndlunar á flatlús sem og öðrum húðmaurum. Greit!! Og þarna stóðum við hönd í hönd og litum út fyrir að vera leita okkur meðhöndlunar við flatlús saman. Og alveg ótrúlega glöð með það.
En það er skemmst frá því að segja að ég var ekki með kláðamaur og við eigum miklar birgðir af Tenutex í ísskápnum. Svo endilega hafið samband ef þið fáið flatlús. Hver hefði getað trúað því að læknum gæti skjátlast??