luxatio hugans

awakening

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Símasala

Nú á að selja símann og þingmenn rífast um það hvað á að gera við gróðann. Ein hugmyndin getur gert mig óða. Það er helvítis Sundabrautin. Reykjavík er ljót borg. Ljót úthverfasteinkumbaldamalbiksfleiribílastæðishús borg. Það er ömurlegt að vera gangandi vegfarandi í Reykjavík. Þrátt fyrir glæsilegu nýju Volvo V40 station kerruna mína, þá er ég mikið fótgangandi með vagninn. Og þetta eru engar vegalengdir hér innanbæjar. En það er ömurlegt að komast sinna ferða fótgangandi. Þessi umferð er náttúrulega rugl, og það er endalaust grenjað, úr öllum áttum, um breiðari vegi, mislægari gatnamót, fleiri bílastæði. Og þessi borg verður ljótari og ljótari.
Það er ekki einu sinni hægt að labba í Öskjuhlíðinni án þess að eiga von á því að það komi bíll á fleygiferð út úr kjarrinu. Það var alveg glatað þegar við vorum að kenna Ingvari að hjóla þar. Maður var með lífið í lúkunum að það kæmi bíll á fleygiferð niður hlíðarnar og krakkinn var ekki kominn með færni til að bremsa. Þetta er náttúrulega út í hött.

En einn þingmaður virðist vera með hausinn í lagi. Hann vill nota ágóðann af símasölunni til að byggja upp og stækka Landspítalann. Hann er líka nýbúinn að vera veikur. Það sem okkur vantar næst er þingmaður sem á hjartveikt barn, eða barnabarn.

Það var nefnilega hringt í mig um daginn og ég beðin um að gefa 3400 krónur til þess að hægt væri að kaupa nýtt tæki á Barnaspítala Hringsins. Svo það þyrfti ekki lengur að senda aumingja litlu greyjin í hjartaaðgerðir til Boston.
Gerum endilega Sundabraut fyrir söluna á símanum og látum almenning í landinu fjármagna tæki til lækninga á litlum börnum. Ég sagði nei.