luxatio hugans

awakening

laugardagur, febrúar 25, 2006

Trompetblogg

Það er ein tegund kvikmyndatónlistar sem fær mig til að vilja skjóta mig í hausinn. Nánar til tekið er um að ræða þemu sem spiluð eru af stökum trompet á afar angurværan hátt. Dálítið bergmál er af einmana trompetleiknum þar til mæta drungalegar fiðlur í A-moll en þær hverfa jafnharðan aftur. Þessi tónlist hreyfir við strengnum í hjartanu sem liggur til einmanaleikans, ónytjungskenndarinnar og vonleysis. Tónlist þessi heyrðist iðulega í einkaspæjaraþáttum á 9. áratugnum. Einkum og sér í lagi þegar klúður með kvenmann átti í hlut. Það fer eitthvað lítið fyrir einkaspæjaraþáttum nú á dögum. Þarf fólk ekki lengur að ráða sér einkaspæjara?
Ef fólk vill tóndæmi af djöflatónlist þessari, er mér efst í huga að Primal Fear með Richard Gere, endaði með slíku þema í gærkvöldi. Richard stendur aleinn úti á götu, nýbúinn að frelsa geðsjúka fjöldamorðingjann og ekki einn bíll er sjáanlegur. Óhugnalegur kokkteill hins sjónræna og hljóðræna. Ekki fyrir viðkvæma.