Finnafjör
Mér fannst það argandi snilld að Finnar skyldu vinna þetta í gærkvöldi. Lagið er líka gott, ég hef enga trú á því að þeir hafi unnið þetta út á skrímslabúningana, þetta er bara drullu melodískt þungarokk. Ég fílaði þá. Svo upplifir maður náttúrulega þessa aumkunarverðu samkennd með þeim að hafa aldrei unnið þessa keppni og finnst þeir eiga það skilið. Ég ítreka þá kröfu mína að senda eitthvað íslenskt grasrótarband, sem við eigum helling af. Auðvitað áttum við að senda Leðjuna til Lettlands. Hvaða rugl! Sendum Trabant, Múm, Ampop, Hjálma, Mugison, uhhh Sigurrós, sénsinn þeir færu aldrei, og ekki Mínus heldur, nema ef vera skyldi að Krummi myndi vilja láta draum pabba gamla rætast. Við eigum svo mikið af töff, töff, töff en samt erum við alltaf með eitthvað MTV atriði. Ljótt er að vita.
Svo fór Balkandramað mitt líka langt, að sjálfsögðu. Og svo spáði ég Litháen góðu gengi. Mér fannst þetta alveg svakalega skemmtilegt lag þegar ég heyrði það í norræna þættinum, en skammaðist mín ógurlega þegar spekingarnir úthúðuðu því. Þetta kennir manni að fylgja hjartanu og skammast sín ekki fyrir eigin smekk. Jesús maður getur næstum því gleymt því að verið er að tala um Júróvisjón en ekki heimsfrið. Skal því hér látið staðar numið um söngkeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og hafist handa við að læra hjartabilun, acut coronary syndrome, a. fib. og kannski meningita ef tími vinnst til í dag. Hvaða rugl? Klukkan er meira en 11. Ég verð að drulla mér út úr húsi. Adios.
<< Home