luxatio hugans

awakening

föstudagur, september 22, 2006

Morgunfundurinn

Ansi spennandi morgunfundur í vikunni. Viðstaddir eru sérfræðingar, deildar/aðstoðarlæknar og læknanemar. Það var verið að ræða athyglisvert tilfelli ungs manns þegar inn ræðst geitungur. Geitungur þessi var haldinn grimmd þeirri sem einkennir geitunga þegar dauðinn nálgast. Töluverður órói skapaðist í læknanemahrúgunni innst í herberginu, næst glugganum, og voru menn vopnaðir plastglösum og blaðsíðum og hófust aðgerðir til að fanga kvikindið. Sérfræðingarnir héldu ró sinni og einbeittu sér að tilfellinu sem fyrir lá. Veiðitilraunirnar í niðurbældri geðshræringu minntu helst á atriði í þögulli bíómynd því ekki mátti trufla fundinn. Loks náðist geitungurinn og flaug nú stjórnlaust og spastiskt innan í hvítu plastglasi sem lá á hvolfi yfir honum.
Á meðan öllu þessu stóð höfðu sérfræðingarnir verið að ræða tilfellið og nú segir einn þeirra: "Hvað viljið þið þá gera við hann?" Ein stúlkan sem hafði líklega bara sturlast tímabundið af viðureigninni við geitunginn svarar hátt og tryllingslega: "Nú við drepum hann auðvitað!!" Það mátti heyra saumnál detta í herberginu og sérfræðingarnir sátu þrumulostnir undir þessari uppástungu. En djöfull hlógum við þegar við losnuðum út af fundinum.