Sagan af Hildusi
Mér er gersamlega um megn að skilja hví ég hef ekki sagt söguna af Hildusi hér á blogginu. Í vor þegar við vorum í verknáminu á medicine, þá fór Hildur Guðjóns á einhverja guðsvolaða medicine deildina, breytir í raun engu hverja þeirra, þær eru allar eins. Nema hvað að fyrsta daginn spyr deildarlæknirinn læknanemana hvað þeir heita. Hildur segist náttúrulega heita Hildur eins og lög gera ráð fyrir, nema um pathologiska lygara sé að ræða. Og deildarlæknirinn endurtekur eftir henni: "Hildus, það er óvenjulegt nafn."
En af því að Hildi fannst svo ólíklegt að manninum hefði misheyrst þetta, þá hélt hún að hann væri svona spaugari að spauga, og var ekkert að leiðrétta hann. Nema hvað að næstu daga segir deildarlæknirinn alltaf Hildus þegar hann ávarpar hana og var þetta orðið hið pínlegasta. En vandræðagangurinn náði hámarki þegar sérfræðingurinn mætti á svæðið og deildarlæknirinn sagði við sérfræðinginn: "Já og svo er þetta læknaneminn okkar, hún Hildus."
Ha? sagði sérfræðingurinn, "heitir hún ekki Hildur?"
"Nei, nei" sagði þá deildarlæknirinn, "hún heitir Hildus."
Og þá varð Hildur ræfilinn að leiðrétta þetta leiðindamál, og sagði að hún héti reyndar Hildur, þó hún hefði svarað Hildusar nafninu í heila viku.
En þessi saga barst Pétri, deildarlækninum á meinafræðideildinni, til eyrna og honum fannst þetta ákaflega sniðug saga. Svo sniðug að alltaf þegar ég hitti hann þá spyr hann mig hvað sé að frétta af Hildusi.
Og við hin sem elskum Hildi mest segjum alltaf að Hildus sé að sinna múslimskum uppruna sínum þegar við vitum ekki hvar hún er.
<< Home