luxatio hugans

awakening

sunnudagur, ágúst 29, 2004

Valur Íslandsmeistari

Það var algjörlega sturlað að vera viðstaddur þegar Valur varð Íslandsmeistari í fótboltanum í gær. Ásta frænka mín er í liðinu og mér fannst hún náttúrulega langbest, og svo var ég hálfklökk, þegar leikurinn var flautaður af og ljóst að titillinn var í höfn. Það er eins gott að þessari meðgöngu fari að ljúka áður en ég tapa kúlinu endanlega. Ásta fékk þrusudóma fyrir sinn leik í blöðunum í morgun, þannig að það var ekki bara frændsemi að mér fyndist hún flottust í liðinu. Ingvar var náttúrulega alflottasti Valsarinn í stúkunni, í valsbúningnum með valsbuffið. Hann veit hins vegar ekkert um fótbolta. Doddi fagnaði til dæmis einu sinni: Já, þetta var góður bolti!! Ingvar svaraði: Já það er vel pumpað í hann. En það stendur nú allt til bóta, því Ingvar er að fara í handboltaskóla hjá Val, sem er í boði fyrir '98 gutta. Ég þrái nefnilega að verða soccermom, talandi um andlega vakningu, og þræða öll shell og essomót á landinu. Eflaust verð ég samt svona foreldri sem fær tiltal á hliðarlínunni, annað hvort hætti ég að öskra á dómarann eða ég verð beðin um að koma ekki á fleiri leiki. Ég sé það alveg fyrir mér.
Að leik loknum fór svo fjölskyldan í dinner til Ragga. Raggi klikkar að sjálfsögðu ekki á matseldinni, það gerist ekki öllu betra. Líf og fjör til ykkar allra.