luxatio hugans

awakening

mánudagur, ágúst 01, 2005

Án titils

Vitur kona sagði eitt sinn við mig að:

1. Ég ætti eftir að verða alkóhólisti. Það sagði hún eftir að hafa horft á mig gúffa í mig nokkrum (mörgum) franskbrauðssneiðum með súkkulaðiáleggi þegar ég var 11 ára.
2. Ég ætti eftir að deyja ung ef ég ekki lærði að slaka á. Þá var ég 16 ára og ALLT Í GANGI.

Nú þegar spá hennar í lið 1 hefur ræst þá langar mig ekkert sérstaklega mikið að láta reyna á lið 2. Það væri verra að komast að því að hún hefði haft rétt fyrir sér. Ég kunni eitt sinn ágætis ráð til að slaka á. (sjá lið 1) Það ráð notaði ég mikið og undir lokin daglega í um 2 ár. En nú hef ég ekki notað það í einhvern tíma en hef ekki fundið nýja leið til að slaka á. Þó hef ég reynt ýmislegt eins og hreyfingu, sund, jóga, hugleiðslu og slökunarspólur ýmiskonar og ekkert virkar. Verstar eru þó slökunarspólurnar, því þegar ég er alveg að slakna eftir þessum leiðbeiningum sem eru gefnar undir panflaututónlist þá þarf ég undantekningarlaust að gubba. Og þá hætti ég.

En nú er ég öll að vilja gerð að deyja ekki ung og því ákvað ég að prófa Höfuðbeina og spjaldhryggjajöfnun sem mér hafði verið bent á að gæti hjálpað mér við þetta. Sem er gott á mig því ég þurfti að láta af hroka mínum. Fátt er betra fyrir fólk eins og mig eins og vera neydd til að láta af hroka sínum. Og þetta var mjög fínt og náði að slaka svona 85% á. Sem er mjög gott fyrir mig. Kannski næ ég meiru næst.

Annars er hroki glataður. Ég hef alltaf verið ofsalega hrokafull og ég er það ennþá. Hrokinn er bara að færast til. Í dag er ég ofsalega hrokafull gagnvart efnishyggju. Til dæmis þegar ég sé fólk á stórum bílum, þá hugsa ég: Ææ aumingja þau að eiga svona innihaldslaust líf að þurfa að reyna fylla það með stórum bíl. Og er aftur á móti farin að snobba fyrir því að fara sem mest fótgangandi eða á hjóli, af því að það er svo andlegt. Já hrokinn hefur margar hliðar. Nú þarf ég að pússa af mér andlegan hroka. Þetta kemur allt á endanum.