luxatio hugans

awakening

þriðjudagur, október 10, 2006

Jólalyktin

Það rifjaðist upp fyrir mér saga í dag. Ég man ekki hvort ég hef sagt hana áður hér á blogginu mínu en það gildir einu. Þetta er mitt blogg og ég get sagt sömu söguna 100 sinnum ef ég vil. Sagan gerist í MA. Við bekkjarfélagarnir vorum að fara í leikfimi í gamla fjósinu eins og það var kallað. Þegar við komum inn í andyrið mætir okkur viðbjóðsleg lykt. Kattahlandslykt. Hver af öðrum fitjaði upp á nefið þegar hann kom inn og sagði: "Oj, það er kattahlandslykt hér!" Þannig gekk það í einhverja stund þar til Sigurður myndarlegi gekk inn. Hans viðbrögð voru: "Uhm, það er jólalykt hér!" Með þessari sögu er ég ekki með neinar aðdróttanir um hreingerningar móður Sigurðar fyrir jólin. Ég hét nefnilega sjálfri mér að koma vel fram við konuna eftir kvöldið þar sem ég sagði henni í óspurðum fréttum að móðir mín hafði talið son hennar þroskaskertan er hann veifaði glaðlega til hennar innan úr strætó.
Ég er góð. Bara misskilin.