Þá er Kýpurferðin afstaðin og páskarnir líka. Kýpurferðin var mjög skemmtileg, þrátt fyrir skort á sól, því stórfjölskyldan var samankomin og það gerist í fyrsta lagi ekki oft, og ef það gerist þá er alltaf eitthvað annað í gangi, jól eða brúðkaup með allt í gangi. Þarna höfðum við voða lítinn möguleika á öðru en að eyða tíma saman og það var bara mjög skemmtilegt. Foreldrar mínir eiga semsagt íbúð á Norður Kýpur í litlu ghettói sem mætti kalla Litlu Dalvík. Það var Dalvíkingur búsettur í Bretlandi sem fékk þá hugmynd að fjárfesta í fasteignum á Norður Kýpur, en nokkuð margir Bretar eiga villur þarna og kom heim og seldi Dalvíkingum íbúðirnar. Þeir sem eru vel að sér í mannkynssögu vita að Kýpur er klofið land og Norður Kýpur tilheyrir Tyrklandi og er ekki viðurkennt ríki af neinni annari þjóð í heiminum. Þar er því ekki mikill túrismi og verð á fasteignum brandari. Reyndar var allt verðlag brandari og hreinn unaður að versla og gerðum við systur mikið af því á sólarlausum dögum.
Þetta eru fjögur hús með 6 íbúðum sem eru með sína sundlaug og var aðstaðan fín. Allt í kring eru svo bara venjuleg íbúðarhús með innfæddum. Í hverjum garði eru hanar og hænur og vaknaði maður iðulega við hanagal og mér finnst rosalegur sjarmi yfir því, en einhverjir ættingjar mínir ráðgerðu hins vegar hanadráp á hverjum morgni um 6.30. Í görðunum vaxa svo appelsínutré og sítrónutré og var svo mikið af ávöxtum að þeir féllu til jarðar og engin lét sig það varða. Við erum sérstaklega búin að kynnast einni fjölskyldunni vel. Fjölskyldufaðirinn er Tyrki og heitir Ozzi, kvæntur breskri konu, Liz og eiga þau tvíbura, Elív og Sabi, sem eru einu ári yngri en tvíbbarnir okkar. Björn og Gyða voru allan tímann með þessum krökkum síðast þegar þau fóru til Kýpur en þau tala auðvitað ensku vegna mömmu sinnar og allir íslenskir krakkar tala ensku í dag. Í þessari ferð var svo hrúga af öðrum tyrkneskum krökkum og það er svo skemmtilegt því í öðrum sólarlandaferðum er maður voða lítið að tengjast innfæddum. Ozzi og Liz tína ávexti af sínum trjám og búa til unaðslegt límónaði úr því. Ingvar var í essinu sínu í þessari ferð. Við vissum aldrei af honum, en vissum að sjálfsagt var hann í garðinum hans Ozzi að byggja kofa eða eitthvað álíka. Bærinn sem við vorum í heitir Alsancak og er mjög ósnortinn. Flest húsin frekar hrörleg en samt snyrtileg eins og fólk sé samt að gera sitt besta við það sem það býr við. Að sjálfsögðu var Moska í bænum og nokkrum sinnum á dag glumdi bænahald í hátalarakerfi. Mér fannst það líka æðislegt, rosalega fallegt að hlusta á það.
En þá að titli færslunnar. Ingvar var með krökkunum í garðinum hans Ozzi og þau voru að leika sér þegar Ingvar segir við Sabi með mjög hörðum framburði: In Æsland ðer is nó sjell on snígúls. Sabi hváir eitthvað við og Ingvar endurtekur hægar: IN ÆSLAND ÐER IS NÓ SJELL ON SNÍGÚLS. Sabi lítur á Gyðu og spyr: What is he saying? Gyða spyr þá Ingvar hvað hann sé eiginlega að segja við Sabi og Ingvar svarar frekar hneykslaður á tungumálaleysinu: Að á Íslandi eru ekki skeljar á sniglunum!
Við öskruðum úr hlátri þegar Gyða kom og sagði söguna.
Það er frá ótrúlega mörgu fleiru að segja úr ferðinni sem ég nenni ekki núna, m.a mislukkuðustu skemmtisiglingu mannkynssögunnar frá því Titanic sigldi jómfrúarsiglinguna, tyrnesku baði og slökunarnuddi, alvöru rakaranum sem karlarnir fóru til sem brenndi hárin innan úr eyrum og nösum, klaustrum, kastölum, yfirgefnu draugaveitingahúsi, 40 rétta máltíðinni sem við snæddum á tyrknesku veitingahúsi, grillveislunni hans Bróa, þegar Ozzi grillaði lamb, geitur og kjúklingar inni í leirofni í garðinum ofan í Dalvíkingana, kostakjörum okkar systra á merkjavöru og almennum pirring yfir brúnkuleysi. Set inn myndir næst.