luxatio hugans

awakening

miðvikudagur, júní 13, 2007

Að standa ekki undir væntingum

Ingvar getur verið fyndinn fýr. Hann er búinn að vera að safna pening upp á síðkastið fyrir einhverjum Draco köllum (veit eigi hvernig það er skrifað) og allt hefur snúist um það. Hann var alveg friðlaus hérna um daginn þegar ég sagði honum að Dr. Maack hefði endilega viljað losna við flöskur og dósir og linnti ekki látum fyrr en við vorum búin að fara og ná í þær.
Svo segir hann dreymandi eitt kvöldið: "Ohh ég öfunda svo krakka sem eiga mömmu og pabba sem eru full á hverjum degi." Mér svelgdist all verulega á kaffinu sem ég var að drekka og vissi ekki hvort ég ætti að þora að spyrja hvers vegna. Ég lét það líka alveg vera að minna hann á að það væru ekkert svo mörg ár síðan hann var sjálfur einn af þeim lánsömu bastörðum. En svo mannaði ég mig upp í það að spyrja hvers vegna hann öfundaði svo þá krakka. Jú, þau geta nefnilega alltaf fengið nóg af dósum. Alright. Það eru rök útaf fyrir sig.
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttamaður á strák í árganginum hans Ingvars í Hlíðaskóla. Á skólaslitunum vatt Ingvar sér borubrattur að henni og spurði hana hvort hún væri ekki fréttakona. Jú, Jóhanna játti því, og mamma hans Hjalta Geirs, sagði hún. Þá dæsti Ingvar: "En hvað Hjalti Geir er heppinn." Ég beið bara eftir því að hann spyrði hana hvort hún væri kannski full á hverjum degi í ofanálag.
Á mánudaginn var svo sumarhátíð í leikskólanum hennar Esterar. Selma Björns á krakka í leikskólanum og heiðraði viðstadda með því að mæma tvö lög með sjálfri sér. Þá hafði Ingvar það að orði hvað það væri nú heppilegt að það væri hægt að fá einhverja svona fræga til að skemmta fólkinu. Í orðunum fólst ásökun um algert gagnsleysi mitt.
Sko nú er mér nóg boðið. Ég vil nú ekkert halda því fram að ég sé eitthvað betri en þessar ágætu mæður, en hringdi neyðarlínan tvisvar í þær á síðasta sólarhring eftir aðstoð?
TELUR ÞAÐ EKKERT Í MÖMMUKLADDANN??!