luxatio hugans

awakening

sunnudagur, desember 23, 2007

Þolláksbloggið 2007

Ester Helga er búin að vera að söngla jólasöngva á aðventunni sem hún lærir í leikskólanum. Ég hef komist að því að mér þykja jólasöngvarnir Fúm fúm fúm og Skín í rauðar skotthúfur einna skemmtilegustu jólasöngvarnir.
Ég var að syngja með henni Göngum við í kringum einiberjarunn um daginn og ég hélt ég dræpist úr leiðindum. Fyrir það fyrsta er þetta langdreginn, monoton söngur, en í öðru lagi og EKKI SÍÐUR er verið að syngja um hluti eins og að þvo þvott, hengja hann upp, brjóta hann saman og skúra gólf. OJ BARA!! Og aldrei man ég eftir að hafa velt þessu fyrir mér þegar ég spangólaði þetta hástöfum við að skrölta umhverfis eitthvert jólatréð. En þarna fann ég verkkvíðann hellast yfir mig og ég gat eigi sungið meir.
Annars hefur þessi aðventa farið í steypuryk, terpentínu og vatnslagnir. Frekar festive verð ég að segja. Því er ekki laust við tilhlökkun að komast norður á eftir þar sem ég geri ráð fyrir hvítri jörð og vel skreyttum og ilmandi heimilum móður og tengdamóður.
Annars óska ég ykkur sem nennið að lesa þetta blogg gleðilegra jóla. Hinir geta farið í jólaköttinn.

p.s ég kann vel að skrifa Þorláksmessa, ég átti langafa sem sagði alltaf Þollákur og habbðu þetta, seggðu!