luxatio hugans

awakening

miðvikudagur, desember 10, 2008

Af flutningabílum

Ég hata flutningabíla og ég vil banna þá á þjóðvegum landsins á dagvinnutíma. Þeir æða á glórulausum hraða á móti manni, ef það er bleyta eða slabb þá ausa þeir svoleiðis yfir bílana sem þeir mæta að rúðuþurrkur á hraðasta eiga ekki roð í verkefnið, sogið sem kemur á eftir þeim getur þeytt venjulegum bílum útaf þegar það er hvasst og hálka og svo er ekki séns að lifa það af ef fólksbílar fara framan á svona ferlíki.
Þeir magna auk þess hjólför og eyðileggja vegkanta.
Þarf ég að halda áfram að telja upp?

Það er verið að halda ríkisstjórnarfund hérna í eldhúsinu hjá mér því Ingvar og vinir hans eru búnir að steypa ríkisstjórninni af stóli og stofna nýja ríkisstjórn. Ég ætla að leggja þetta fyrir nýju ríkisstjórnina að þeir komi flutningabílum af sömu vegum og ég þarf að aka.

Annars skil ég ekki eljuna í Ingvari að nenna setja sig inn í stjórnmál og efnahagsástandið. Ég er 29+ eða eitthvað, ég man það ekki alveg, og ekki nenni ég að setja mig inn í ástandið nema kannski í örfá sekúndubrot á nokkura vikna fresti. En hann nennir endalaust að velta sér upp úr Evrum og ESB og seðlabankanum og Glitni og einhverju sem mér finnst svo boring að ég nenni varla að pikka það inn.
Jamm.