luxatio hugans

awakening

mánudagur, desember 30, 2013

Mangi Griffin

Átti svona Stewie Griffin moment með Manga í morgun. Magnús er alveg bleiulaus á daginn en sefur enn með bleiu. Í morgun kom hann inn til mín og vakti mig og sagðist þurfa að kúka. Ég sagði honum þá að fara og kúka í koppinn. Nei ég er búin að kúka í bleiuna, sagði hann. Ohh! sagði ég og var syfjuð og lokaði aftur augunum. Þá heyrði ég aftur í Magnúsi, Mamma viltu koma og taka kúkinn, þetta er ógeðslegt!

föstudagur, desember 27, 2013

Ingvar og vinir hans

Ingvar og vinir hans hanga svolítið oft í kjallaranum hjá okkur. Þau horfa á bíómyndir með hljóðið hátt stillt og spila háværa tónlist og spila póker með pókersettinu sem pókerklúbburinn Sápan notaði áður en hefur ekki snert í fjögur ár og hafa hátt á meðan. Þrátt fyrir öll ólæti býð ég þau velkomin inn úr rigningunni í hlýjuna, gef þeim smákökur og kók og stundum kvöldmat, ég er nú ekki beint að knúsa þau né er ég neitt voðalega ræðin eins og þið vitið sem þekkið mig raunverulega en þau eru velkomin að vera hér og ég vil að þau finni það. Því á meðan þau eru hér þá eru þau hvergi annars staðar og það finnst mér svo notalegt að ég sef friðsælum svefni í gegnum hljóðin úr kjallaranum.

Dulítið jólablogg

Þið sem þetta lesið verðið að afsaka ef þetta eru full egocentrisk skrif en þegar ég ákvað að byrja að skrifa aftur þá var það til að punkta niður hluti sem gaman væri að muna eftir nokkur ár. Fyrstu jólin hennar Fríðu voru ofurhress. Við settum ekki pakkana undir tréð fyrr en að lokinni máltíð til að að Magnús Gauti myndi ekki tryllast undir borðhaldinu. Þegar Ester og Ingvar og Magnús byrjuðu svo að bera pakkana undir tréð hækkaði blóðþrýstingurinn hjá Manganum jafnt og þétt enda áttaði hann sig á því að einhver ætti afmæli og svo ákvað hann að það væri hann sjálfur sem ætti afmæli. Enda fór það svo að hann fékk pakka til að opna, reyndar fengu líka aðrir pakka fyrir kurteisisakir, pínu orättvist eins og hann orðaði það sjálfur. Æsingurinn var þvílikur að pappír, borðar og merkimiðar flugu í allar áttir, við Doddi reyndum eins og við gátum að tína allt upp um leið enda lítil mannleg ryksuga á gólfinu. Þrátt fyrir það vissum við ekki fyrr en Fríða fór að hósta og kúgast og upphófst þá smá panik hjá foreldrunum að fría loftveg örverpisins. Það gekk ekki um leið og svæfingalæknirinn var búin að gefa mömmunni (sem er í fæðingarorlofi og ekki starfandi....) fyrirmæli um að hringja á sjúkrabíl þegar litla Fríða loksins hóstaði/ældi upp blóðugum pappírsvöndli með límbandi á. Á meðan þessu stóð voru miðjurnar tvær, Ester og Magnús, í blóðugum slagsmálum hver ætti að fá að opna næsta pakka, sem er viðeigandi þegar yngsti fjölskyldumeðlimurinn er í lífshættu. Ingvar fór bara að spila á píanóið eins og hann er vanur að gera þegar akkúrat það síðasta sem ég þarf á halda er dinnertónlist. Þegar Fríða var farin að anda spontant tók mamman nett jólaöskur að nú þyrftu allir að róa sig og haga sér almennilega og eftir það var þetta hið rólegasta kvöld og menn voru bara spakir að opna pakkana. Þegar Magnús Gauti talaði við afa sinn í síma seinna um kvöldið sagði hann: "Gauti á afmæli og mamma er reið!"

fimmtudagur, desember 26, 2013

Endurreisn bloggsins

Hér ætla ég að fara að skrifa eitthvað hrikalega sniðugt alltaf þegar mér dettur það í hug. Því það sem ég fattaði þegar ég fór að lesa þessar gömlu bloggfærslur er hvað þetta er frábær leið til að muna. Ég var búin að steingleyma þessu öllu sem ég renndi yfir um daginn. Og samt eru þetta bara 7 ára bloggfærslur og ég á vonandi eftir að lifa í 70 ár í viðbót og guð veit hvað ég á eftir að vera búin að gleyma miklu þá. Þannig að hér get ég sett inn til að muna hvað börnin mín eru sniðug og skemmtileg. Þau eru nefnilega ekki stillt og prúð og ástæðan fyrir því að okkur Dodda finnst þrátt fyrir það gaman að vera foreldrar þeirra er að þau eru alveg rosalega fyndin, sem betur fer.