luxatio hugans

awakening

þriðjudagur, maí 13, 2003

Þrátt fyrir miklar yfirlýsingar um að blogga ei meir um líkamlegt ástand mitt, þá kemur hér ein lítil færsla í þeirri von að aðrir geti lært af henni.
Í fyrradag þá ákvað ég í ergelsi próflesturs að fara út að labba mér til hressingar og til að koma lífi í stirðnaða vöðva. Auk þess eru þeir að gera mig brjálaða með spriklinu, sambýlingarnir. Ekki var ég búin að ganga lengi þegar ég fór að finna fyrir því að hællinn nuddaðist óþægilega upp við skóinn, en ég lét það ekki á mig fá og hélt göngunni áfram, minnug fitubrennslu niðurstöðunnar úr ergometriunni. Eftir um hálftíma göngu var ég orðin hölt og afar kvalin, og frekar langt heim. Ég skima í kringum mig eftir einhverju mýkjandi og sé fífil. Ég ríf krónuna af stilknum og kem henni haganlega fyrir á blóðuga svæði hælsins, í þeirri von um að draga úr núningnum. Á leiðinni heim leið ég vítiskvalir og sveið mjög undan fíflinum, svo ég fjarlægði hann aftur og haltraði heim. Sokkurinn og sömuleiðis skórinn var alblóðugur, minnti útgangurinn á vondu stjúpsysturina sem hjó af sér hælinn. Gærdagurinn var svo alveg sæmilegur en í nótt sem leið, vakna ég við mikla verki og get ekki sofnað aftur. Mikill hiti og þroti var í fætinum og ég hugsa með mér að ég hafi sennilega fengið sýkingu af helvítis fíflinum og staulast við illan leik inn á bað og ber á mig sýkladrepandi áburð, Fucidin. Það er við manninn mælt að sviðinn og verkurinn verður gjörsamlega óbærilegur og get ég engan vegin verið. Á meðan á öllu þessu stendur get ég svo hlustað á samfarahljóð nágranna minna sem búa þremur hæðum fyrir neðan mig, mikill losti þar. Ég gafst að lokum upp og tók tvær verkjatöflur og gat að lokum sofnað. Ég er bara pínu hölt í dag en finn að ég verð að passa mig. Ég vona að þessi saga verði einhverjum víti til varnaðar. Hættum þessu hreyfingarrugli!!!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home